Reyna að fjarlægja Angró sem fyrst

Farið verður í að fjarlægja húsið Angró, við utanverða Hafnargötu á Seyðisfirði, þegar veður þar lægir með aðstoð sérfræðinga Minjaverndar. Burðarvirki hússins virðist hafa gefið sig í óveðrinu sem gekk yfir Austurland í gær. Þegar var búið að taka ákvörðun um flutning hússins.

„Það er ekki víst að þetta breyti miklu um þær fyrirætlanir sem verið hafa, frekar að það verði farið fyrr í þær en ella.

Húsið var í friðunarferli og það lá fyrir að aldrei yrði nýttur nema hluti hússins við endurbygginguna,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, eiganda hússins.

Angró stóð af sér skriðuföllin í desember 2020 en veggir hússins skemmdust þó. Það er á hættusvæði og var sett í forgang við flutning og enduruppbyggingu. Að þeim áformum hefur verið unnið síðustu mánuði.

Björn segir ekki enn ljóst hvað varð til þess að Angró féll saman í gær. Vegna veðurs hefur ekki verið talið óhætt að fara að húsinu til að kanna aðstæður almennilega og verður vart hægt að gera fyrr en á morgun. Af myndum að dæma virðist burðarvirkið hafa gefið sig og þá trúlega verið í verra ástandi en talið var eftir skriðurnar. „Það fýkur ekki heldur fellur bara niður. Efri hlutinn virðist í lagi en annað hefur gefið sig,“ segir Björn.

Múlaþing undirbýr nú aðgerðir á svæðinu í samvinnu við Minjastofnun. „Við áttum ágætan fund í dag. Við horfum til þess að fara sem fyrst í að fjarlægja húsið. Við þá vinnu þarf að greina og flokka þá hluti sem Minjavernd vill halda í. Við fáum þaðan nákvæmar leiðbeiningar um hvernig eigi að vinna verkið og ætlum að reyna að fá aðila í verkið sem þekkja til hússins.“

Saga hússins

Húsið er sögufrægt, byggt af Otto Wathne um 1880 en Otto er oft nefndur Seyðisfjarðar vegna mikillar uppbyggingar við útgerð og verslun. Hann fékk land á Búðareyri og byggði sér þar stórhýsi en hið sérstæða nafn kann að vera afbökun á „en gros“ sem þýðir stórverslun, að því er fram kemur í samantekt Elfu Hlínar Pétursdóttur um bryggjuhús á Seyðisfirði.

Á tíma Wathne var húsið notað undir síldarverkun, verslun og íbúð. Form hússins er talið hafa haldist lítt breytt frá 1889 og á þeim tíma hefur það þjónað ýmsum hlutverkum. Sögur segja að þar hafi verið haldin veisla til heiðurs norska landkönnuðinum og heimskautafaranum Fridtjof Nansen er hann kom til Seyðisfjarðar árið 1910.

Á hernámsárunum leigði breski herinn Angró af Seyðisfjarðarkaupstað og hafði þar skrifstofur, geymslur og sal til kvikmyndasýninga. Bryggjan við húsið var lengi ein af aðalbryggjum Seyðisfjarðar en hún skemmdist mikið í skriðuföllunum 2020. Af öðrum helstu hlutverkum hússins má nefna netagerð, ölstofu, íbúðir og loks geymslu- og sýningarhúsnæði fyrir Tækniminjasafn Austurlands. Það var tæmt eftir skriðurnar.

Mynd: Helgi Haraldsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.