Raunveruleg hætta á að strokulax geti blandast villtum laxi

Skipulagsstofnun vill að Fiskeldi Austfjarða fjalli um kosti þess að nota ófrjóan lax í nýju eldi á Austfjörðum. Til stendur að ráðast í alhliða kortlagningu á útbreiðslu laxfiska í austfirskum ám á næstunni.


Þetta kemur fram í umsögn Skipulagsstofnunar um tillögu að matsáætlun fyrir fyrirhugsað eldi félagsins þremur stöðum á Austurlandi. Sótt er svæði í Mjóafirði og Norðfjarðarflóa, Stöðvarfirði og Seyðisfirði, 10.000 tonn á hverjum stað. Fallist er á matsáætlunina með skilyrðum.

Skipulagsstofnun skikkaði nýverið Laxa fiskeldi til að skoða kosti þess að nota ófrjóan lax í fyrirhugðu eldi og það sama er lagt til við Fiskeldi Austfjarða. Í svari fyrirtækisins er því haldið fram að forsendur vanti til að meta eldi geldlax þar sem rannsóknir á honum séu á byrjunarreit en fjallað verði um möguleikann.

Veiðifélög, einstaklingar og stofnanir sendu inn athugasemdir við matsáætlunina og lýsa áhyggjum af áhrifum eldislax á villta stofna.

Óbætanlegur skaði á náttúrulegum stofnun?

Veiðifélag Jökulsár á Dal og Lagarfljóts bendir á að miðað við fyrirhugað eldi á Austfjörðum megi, samkvæmt norskri reynslu, gera ráð fyrir að 40.000 fiskar sleppi úr eldinu, sem sé um 49% af náttúrulegum stofnum á Íslandi. Ef brot af strokufiski gangi í veiðiár valdi það óbætanlegum skaða á náttúrulegum stofnum.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar segir að þótt notuð sé besta gerð af eldisbúnaði hafi slíkt ekki komið í veg fyrir að lax hafi sloppið úr kvíum Fiskeldis Austfjarða í Berufirði. Stofnunin hefur hug á að ráðast í alhliða kortlagningu á útbreiðslu laxfiska í ám á Austfjörðum á næstunni.

Mat Skipulagsstofnunar er að raunveruleg hætta sé á að strokulax úr sjóeldi nái að blandast villtum laxi og fjalla þurfi um áhættu þess að lax sleppi úr kvíunum.

Í svari Fiskeldis Austfjarða segir að máli skipti hvenær á eldistímanum fiskurinn sleppi upp á hve langt hann fari. Þá sé verið að uppfæra eldiskvíar.

Fiskistofa vill að skoðað verði heildstætt möguleg áhrif á villta stofna við landið. Fiskeldi Austfjarða telur slíka vinnu eiga vera á hendi opinberra aðila.

Hætta af marglyttum?

Ýmsar aðrar ráðstafanir þarf að gera. Fara þarf í ítarlegar rannsóknir á lífríki fjarða, straumum og blöndum sjávar, dýpt fjarða og mögulegri útbreiðslu sjúkdóma þótt Austfirðir henti vel frá náttúrunnar hendi til að lágmarka sjúkdómahættu.

Gerðar eru kröfur um ítarlegri vöktun kvíanna. Þá þarf að meta útgreiðslu og magn marglyttu auk þess að gera grein fyrir viðbrögðum berist hún í miklu magni að eldinu. Áföll í fiskeldi á Austfjörðum hafa orsakast af því að marglytta hefur fests í nótum eldiskvía.

Í kvöld verður opinn fundur um fiskeldismál í Fjarðabyggð. Hann hefst klukkan 20:00 og verður í Grunnskóla Reyðarfjarðar. Meðal frummælenda eru fulltrúar frá Skipulagsstofnun, Hafrannsóknastofnun og Löxum fiskeldi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.