Ratcliffe kaupir jarðir í Vopnafirði og olíulindir í Norðursjó

Breski auðjöfurinn Jim Ratcliffe hefur styrkt eignarhald sitt á jarðnæði í Vopnafirði með kaupum á meirihluta hlutafjár í Veiðiklúbbnum Streng. Á sama tíma á fyrirtæki hans, Ineos, í viðræðum um kaup á olíu- og gaslindum í Norðursjó.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Ratcliffe hefði keypt eignarhaldsfélagið Grænaþing af Jóhannesi Kristinssyni. Grænaþing átti 52,67% í Streng en fyrir var Ratcliffe með 34% hlutafjár í félaginu. Eftir viðskiptin á Ratcliffe 86,67 hlutafjár í Streng.

Í fréttinni kemur fram að tilkynnt hafi verið um viðskiptin á fundi í Veiðifélaginu í síðustu viku en rúm vika er síðan þota Ratcliffe var síðast á flugvellinum á Egilsstöðum.

Grænaþing var áður í eigu Dylan Holdings sem kennt hefur verið við Jóhannes. Samkvæmt úttekt Morgunblaðsins á Strengur jarðirnar Lýtingsstaði I og III, Hvammsgerði og Hamar í heild, helming í Fagurhól og 67% í Áslaugarstöðum. Að auki átti Grænaþing 20% í Hauksstöðum og 43% í Þorvaldsstöðum og helmingshlut í Fremri-Nýpum. Þá á Strengur veiðihótelið við Selá.

Fyrir voru jarðirnar Síreksstaðir, Hámundarstaðir I og III, Háteigur og Guðmundarstaðir að fullu í eigu félaga Ratcliffe.

En Ratcliffe, sem er talinn ríkasti maður Bretlandseyja, hefur keypt meira síðustu daga. Um helgina greindi breska blaðið Sunday Times frá því að fyrirtæki hans, Ineos, væri í viðræðum um að kaupa rekstur bandaríska olíuleitarfélagsins ConocoPhilipps í Bretlandi sem ræður yfir olíu- og gaslindum í Norðursjó.

Ineos hefur þrjá mánuði til að ganga frá viðskiptunum sem talin eru nema 2,3 milljörðum punda eða 366 milljörðum króna. Meðal olíulindanna eru Clair svæðið, 75 km vestur af Hjaltlandseyjum og Britannia sem er 200 km norðaustur af Aberdeen.

Ineos hefur undanfarin ár styrkt stöðu sína með kaupum á olíu- og gaslindum í Norðursjó. Það byrjaði að safna þeim árið 2015 og er nú með stærstu olíuframleiðslufyrirtækjum á svæðinu.

Bæði Ineos og ConocoPhilipps eiga dótturfyrirtæki í Noregi og eru með olíu- og gasvinnslu undan ströndum landsins.

Þá gekk Ineos fyrir helgi frá kaupum á efnafyrirtækinu Ashland fyrir 1,1 milljarð Bandaríkjadala eða tæplega 140 milljarða íslenskra króna.

Mynd: Wikimedia Commons

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.