Rafmagnslaust á Efra-Jökuldal frá miðnætti

Víðtækar rafmagnstruflanir hafa verið á Austurlandi frá því á sunnudag. Íbúar á Efra-Jökuldal hafa verið án rafmagns frá miðnætti og skólahald var blásið af á Brúarási í morgun. Viðgerðarflokkar Rarik eiga erfitt um vik uns veðrið gengur niður.

Rafmagn hefur farið út á mörgum stöðum á Fljótsdalshéraði í morgun. Einna verst hefur ástandið verið á Efra-Jökuldal þar sem rafmagnslaust hefur verið frá miðnætti.

Þá er allur Jökuldalur úti frá Brúarási. Rafmagn komst á um tíma í morgun upp að en datt út aftur um klukkan ellefu. Rafmagnslaust var á Jökuldal á meðan bjart var á sunnudag.

Að auki hefur í morgun verið straumlaust frá Viðbót í Fjallssel, frá Ekru í Húsey, utanverðri Hjaltastaðaþinghá og álma úti sem liggur að bænum Hólmatungu í Jökulsárhlíð.

Þá er straumlaust í norðanverðum Seyðisfirði frá Vestdal og út að Selsstöðum. Frá því á sunnudag hefur verið ólag á línunni frá Hánefsstöðum í sunnanverðum firðinum og yfir til Mjóafjarðar. Rafmagn komst á þar seinni partinn í gær en enn er keyrð dísilrafstöð á Mjóafirði.

Í morgun kom að auki upp bilun frá Stöð í Stöðvarfirði og út á Kambanes og í Vopnafirði frá Torfastöðum að Strandhöfn. Viðgerð er lokið á báðum stöðum.

Samkvæmt upplýsingum frá Rarik á Austurlandi eru viðgerðarflokkar ýmist komnir á hin rafmagnslausu svæði eða á leið þangað. Von er því á að einhver svæðanna fái aftur rafmagn innan tíðar.

Annars staðar mun það taka lengri tíma. Á Jökuldal er blindbylur og ekkert skyggni. Þar er biluð lína en eftir að staðsetja hana nánar.

Ekki er fyllilega ljóst hvað veldur rafmagnstruflununum. Alls staðar er um loftlínur að ræða og ekki vitað hvort á þær hefur sest ísing, selta eða hvort tveggja. Hvergi hafa sést brotnir staurar né hvort línur séu í jörðu eða jafnvel slitnar. Það er þó ekki fyllilega að marka vegna skyggnis og því ekki hefur verið hægt að kanna öll svæði.

Hvasst og úrkomusamt hefur verið á Austurlandi frá í gærkvöldi. Veðrið á að lagast síðari partinn í dag og er þá vonast til að betur gangi að rekja bilanirnar. Nánari upplýsingar um rafmagnsleysi og stöðu aðgerða vegna þess má nálgast á vef Rarik. Engar truflanir hafa hins vegar verið á dreifikerfi Landsnets síðustu daga.

Mynd úr safni.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.