Rafmagn komið á allt Austurland

Dreifikerfi Landsnets virkar orðið eðlilega á öllu Austurlandi og er rafmagn ýmis komið á, eða ætti að komast á, innan tíðar alls staðar. Ekki hafa verið teljandi útköll vegna óveðursins á Austfjörðum í morgun.

Rafmagn fór af öllu svæðinu frá Vopnafirði suður til Hafnar í Hornafirði rétt rúmlega tíu í morgun. Fyrstu staðir fengu rafmagn fyrir hádegi en um klukkan eitt var allt dreifikerfið komið í gang, samkvæmt upplýsingum frá Landsneti.

Orsök rafmagnsleysisins er ekki að fullu ljós en hún var rakin til Fljótsdalslínu 2 sem liggur frá Fljótsdalsstöð að tengivirki við bæinn Hryggstekk í Skriðdal. Talið er sennilegast að vírum í línunni hafi slegið saman í vindinum í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi hafa aðstoðarbeiðnir vegna veðursins í morgun verið fáar og smávægilegar. Fjallvegum var lokað um klukkan sjö í morgun. Ástand þeirra verður skoðað síðar í dag en miðað við að spáð er áframhaldandi hríð virðist allt eins líklegt að þeir verði áfram lokaðir.

Vegfarendur virðast hafa virt lokanirnar því ekki hafa verið nein útköll vegna ferðalanga í vandræðum. „Við erum ánægð með okkar fólk,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn.

Veðurstofan spáir áfram norðan stormi, 18-25 m/s með talsverðri úrkomu fram á kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.