Ræktun iðnaðarhamps leyfð

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra, sem heimilar innflutning og ræktun iðnaðarhamps, tekur gildi í dag. Flytja má inn plöntur svo lengi sem innihald vímuefnisins THC er ekki í nýtanlegu magni, eða undir 0,2%.

Tilkynnt var um breytinguna um helgina. Bændur í Gautavík í Berufirði eru meðal þeirra sem harðast hafa barist fyrir þessum tilslökunum en þeir stunduðu síðasta sumar tilraunarækt á iðnaðarhampi.

Í nóvember sendi Lyfjastofnun lögreglunni á Austurlandi ábendingu um að ræktunin bryti í bága við lög um ávana- og fíkniefni þar sem ekki hefði verið fengin undanþáguheimild frá stofnuninni fyrir innflutningi fræanna. Mánuður er síðan málið var fellt niður á þeim forsendum að ábúendurnir hefðu talið sig hafa tilskilin leyfi og verið í rétti.

Með reglugerðarbreytingu ráðherra er Lyfjastofnun veitt undanþáguheimild með stoð í lögum um ávana- og fíkniefni þannig að innflutningur, meðferð og varsla fræja til ræktunar iðnaðarhamps er möguleg.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að vaxandi áhugi sé hérlendir fyrir ræktun iðnaðarhamps til notkunar í ýmsum iðnaði, til dæmis framleiðslu húsgagna og byggingarefna, en iðnaðarhampurinn er talinn geta kominn í stað ýmissa efna sem ógna umherfinu, svo sem plasts.

Vandamál hampsins er hins vegar að hann er af ættkvísl kannabisplantna og innihalda sumar frænkur hans efnið THC sem er bæði vímuvaldandi og ábanabindandi. Iðnaðarhampurinn inniheldur á móti lítið sem ekkert af THC og þar með er ekki hægt að vinna úr honum vímuefni. Sem dæmi má nefna að í sýnum sem lögregla tók á Gautavík í nóvember fannst THC ekki í mælanlegu magni.

Í tilkynningu ráðuneytisins er bent á að ýmsar reglur gildi um ræktun iðnaðarhamps í nágrannalöndunum. Heimilt sé að rækta með skilyrðum hampplöntur sem innihaldi minna en 0,2% í Danmörku og Svíþjóð auk þess sem ræktun á iðnaðarhampi hafi verið hluti af styrkjakerfi Evrópusambandsins frá árinu 2000. Ræktunin er ekki leyfð í Noregi en þar eru málin sögð til skoðunar.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra leggur áherslu á að reglugerðarbreytingin sé tímabundin ráðstöfun: „Ávana- og fíkniefnalöggjöfin hefur skýr markmið og tilgang sem fellur augljóslega að málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins. Það gerir sú ræktun sem hér um ræðir hins vegar ekki, að því gefnu að hún stangist ekki á við inntak og markmið þessara sömu laga,“ er haft eftir henni í tilkynningunni.

Hún segir því nauðsynlegt að skipa starfshóp til að koma þessum málum í farveg, ekki síst til að skýra lagagrundvöllinn og ábyrgð þeirra stofnana sem þurfa að koma að framkvæmdinni þegar kemur að leyfisveitingum og eftirliti með ræktun iðnaðarhamps. „Heilbrigðisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið þurfa að vinna þetta saman ásamt þeim stofnunum ráðuneytanna þar sem nauðsynleg þekking er fyrir hendi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.