Ekki ástæða til að aðhafast í ráðningu bæjarstjóra Seyðisfjarðar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið telur ekki forsendur til formlegrar umfjöllunar á ráðningu bæjarstjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar í fyrra. Ráðuneytið telur meirihluta bæjarstjórnar ekki hafa farið út fyrir valdheimildir sínar við ráðninguna sjálfa en gerir athugasemd við hvernig staðið var að ákvörðun um að hefja ferlið.

Aðkoma ráðuneytisins hófst á því þrír bæjar- og varabæjarfulltrúar minnihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks óskuðu eftir áliti ráðuneytisins á ráðningunni. Bréf þeirra var dagsett 2. ágúst, daginn eftir fund bæjarstjórnar þar sem ákvörðun um ráðninguna var tekin.

Ráðuneytið ákvað um miðjan nóvember að taka afstöðu til þess hvort málið tilefni til formlegrar umfjöllunar. Málið hefur tekið nokkurn tíma en við tóku bréfaskipti við bæjarstjórn og bæði fulltrúa minni- og meirihluta sem stóðu fram í byrjun maí.

Sveitarfélagið fékk loks formlega niðurstöðu í byrjun júní. Hún er sú að hvorki ráðningarferlið né niðurstaða þess gefi tilefni til formlegrar umfjöllunar eða annarra úrræða. Málinu sé þar með lokið af hálfu ráðuneytisins.

Ámælisvert að ákvörðun um auglýsingu hafi ekki verið tekin á formlegum fundi

Í svari ráðuneytisins er minnt á að sveitarstjórn ráði framkvæmdastjóra sveitarfélags til að fylgja eftir ákvörðunum sínum og verkefnum sveitarfélagsins. Í sveitarstjórnarlögum séu ekki gerðar sérstakar hæfniskröfur til sveitarstjóra.

Þá hafi sveitarstjórnum almennt verið veitt meira svigrúm við val á framkvæmdastjóra sveitarfélagsins en gengur og gerist við ráðningar opinberra starfsmanna. Sú niðurstaða er í samræmi við niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis, sem áður tók málið til skoðunar eftir kvörtun umsækjanda.

Ráðuneytið minnir einnig á að sveitarstjórn taki ákvörðun um að auglýsa eftir framkvæmdastjóra sveitarfélags og ákveða þær kröfur sem gerðar eru til umsækjenda. Bæjarstjóri var ráðinn í byrjun ágúst að undangenginni auglýsingu og mati fagaðila.

Ráðuneytið telur hins vegar ámælisvert að ákvörðunin um að auglýsa eftir bæjarstjóra hafi hvorki verið tekin á formlegum fundi bæjarstjórnar né bæjarráðs. Sá ágalli sé hins vegar ekki það verulegur að ástæða sé til frekari úrræða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.