Ráðherra telur þörf á að breyta lögum um smávirkjanir

Umhverfis- og auðlindaráðherra telur rétt að skoða lög sem undanskilja smávirkjanir frá rammaáætlun og mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt þurfi að skoða arðgreiðslur og eignarhald orkufyrirtækja sem nýta nýja orkugjafa.

Þetta kom fram í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindamála, á fundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á Egilsstöðum í síðustu viku. Guðmundur var þar einkum spurður út í áform um virkjun Geitdalsár í Skriðdal, virkjun sem á að verða 9,9 MW að stærð.

Virkjanir undir 10 MW eru á Evrópuvísu skilgreindar sem smávirkjanir. Samkvæmt íslenskum lögum heyra þær ekki undir rammaáætlun, lög frá 2011 sem ætlað var að lista upp virkjunarkosti hérlendis og flokka þá í nýtingar-, verndar- og biðflokk. Þá eru smávirkjanir einnig undanþegnar mati á umhverfisáhrifum. Rétt er að taka fram að til stendur að áform um virkjun í Geitdalsá fari í umhverfismat.

Hver er munurinn á 9,9 og 10,1 MW virkjun?

Á fundinum lýsti Guðmundur Ingi því þó yfir að skoða yrði lögin sem smávirkjanirnar séu undanþegnar. „Við höfum haft þungar áhyggjur síðan við fórum að sjá níu komma eitthvað megawatta virkjanir poppa upp. Þarna er aðeins verið að sleppa við rammaáætlun. Hver er munurinn á áhrifum 9,9 MW og 10,1 MW virkjunar?

Við eigum að breyta þessu viðmiði í lögunum. Við verðum að horfa á hver áhrifin eru, ekki stærðina. Við getum verið með 20 MW virkjun sem hefur tiltölulega lítil áhrif eða 5 MW virkjun sem hefur mikil áhrif. Þarna er verk að vinna.“

Guðmundur Ingi sagði að málin hefðu verið skoðuð í ráðuneytinu. Hann sagðist hins vegar ekki hafa rætt málin við samstarfsflokkana í ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. „Hugur minn og VG er ljós.“

Skipulagsvald á gráu svæði?

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hefur hafið vinnu við breytingu á aðalskipulagi sínu vegna Geitdalsárvirkjunar. Meðal annars hefur verið gagnrýnt að þar með sé sveitarfélagið farið að færa sig inn á landssvæði sem eftir sé að úrskurða um hvort falli undir þjóðlendur. Þær falla undir forsætisráðuneytið og því hefur verið haldið fram að sveitarfélagið sé mögulega að skipuleggja svæði sem það ráði ekki yfir.

Guðmundur Ingi sagði að þótt sveitarfélögin í landinu farið með skipulagsvaldið í landinu sé þeim vart hagur í að gera skipulag sem sé í trássi við stefnu við ríkið sem hafi leyfisveitingarvaldið. Hann benti ennfremur á að Geitdalsárvirkjun sé ekki eina smávirkjunin sem hafi valdið upp deilur. Guðmundur Ingi ítrekaði að þessi dæmi sýndu veikleika núverandi laga því sveitarfélögin verða að taka tillit til þess í sinni skipulagsgerð í hvaða flokk virkjunarkostur hefur verið settur samkvæmt rammaáætlun.

Hvernig verður greitt fyrir vindorkuna?

Fundargestir vöktu einnig máls á því að sveitarfélagið og fjármálaráðuneytið hefðu gert drög að samningi um innheimtu tekna fyrir virkjunarréttinn. Ekki væri rétt að ráðuneytið stæði í þeirri samningagerð heldur ætti það að vera í höndum Ríkiseigna. Guðmundur Ingi sagðist vita til þess að Ríkiseignir færu með málið. Hann minnti hins vegar á íslenska stjórnskipunarhefð um að einn ráðherra hefði ekki áhrif á málefni annars ráðherra en vissulega væri hægt að ræða það ráðherra á milli eða í ríkisstjórn.

Ráðherrann var einnig spurður út í stöðu annarra virkjanna en þeirra sem ekki nýta kalt, rennandi vatn. Guðmundur Ingi svaraði að á síðustu árum hefði orðin mikil framþróun í hagkvæmni vindorku og búast mætti við mikilli fjölgun slíkra kosta í næsta áfanga rammaáætlun.

Hann benti á að hugmyndir um vindorkuver væru margar á vegum fyrirtækja í einkaeigu meðan jarðvarmi og vatnsorkan hefði almennt verið nýtt hérlendis af fyrirtækjum í opinberri eigu. Þetta kalli á nýjar spurningar, meðal annars hvernig eigi að borga arð af vindorkukostum. „Þetta eru grundvallarspurningar sem við höfum ekki þurft að hugsa um áður því opinberir aðilar hafa virkjað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.