Ráðherra krafinn svara um rekstur Sundabúðar á Vopnafirði

Sara Elísabet Svansdóttir sveitarstjóri Vopnafjarðar segir að á næstunni verði sent bréf til heilbrigðisráðherra þar sem krafist verður svara um rekstur hjúkrunarheimilisins Sundabúðar.


Hreppsráð Vopnafjarðar samþykkti í síðasta mánuði samhljóða að ekki verði lengur unað við að rekstarvandi Sundabúðar lendi á rekstri sveitarfélagsins og ítrekar að ríkið axli ábyrgð á rekstrinum. Jafnframt var sveitarstjóra falið að senda umrætt bréf.

 


Sara Elísabet segir að framlög frá Sjúkratryggingum standi engan veginn undir rekstrinum. Sem stendur þarf sveitarfélagið að leggja Sundabúð til 50 milljónir króna á ársgrundvelli en ekki er lögbundið að sveitarfélagið standi undir rekstrinum.

„Það er augljóst að 50 milljónir króna er þungur baggi á jafnlitlu sveitarfélagi og Vopnafjarðarhrepp en er þessi fjárhæð er tekin beint af A-hluta rekstursins. Það gangur einfaldlega ekki upp,“ segir Sara Elísabet. „Við getum vel notað þessa upphæð í önnur brýn verkefni eins og gatnagerð og fleira.“

Sara Elísabet bendir ennfremur á að fleiri sveitarfélög glími við svipaðan vanda og nefnir sem dæmi að Akureyri hafi nýlega slitið samningi sínum við Sjúkratryggingar vegna reksturs hjúkrunarheimila þar í bæ.

Aðspurð um hvort til greina komi að Vopnafjörður segi einnig upp samningi sínum við Sjúkratryggingar segir Sara Elísabet að það sé ekki til umræðu enn. „Málið er allt í vinnslu hjá okkur en fyrst bíðum við svara frá heilbrigðisráðherra,“ segir Sara Elísabet.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.