Plastlaust Austurland: „Við þurfum að gera eitthvað“

Hús handanna stendur fyrir dagskrá um helgina með yfirskriftinni Plastlaust Austurland. Lára Vilbergsdóttir hjá Húsi handanna segir að það geti verið auðveldara fyrir lítil samfélög að verða umhverfisvænni en stærri. 

 Plastlaus september er árlegt átak á landsvísu sem snýst um að hvetja fólk til umhugsunar um daglega plastnotkun og umhverfisvænni lífstíl. Lára segir kveikjuna á bakvið dagskránna í Húsi handanna í raun tvíþætta. „Við í Húsi handanna höfum verið að taka inn þessar umhverfisvænu vörur sem hluta af okkar konsepti og vorum að setja okkur sérstaka umhverfisstefnu. Svo sá ég að það var í flestum landsfjórðungum eitthvað um að vera í tilefni af Plastlausum september þannig að mig langaði taka þátt og gera eitthvað hér til að vekja athygil á umhverfisvernd.“

Lára segir Austfirðinga þurfa að huga að umhverfisvernd eins og alla aðra. „Við þurfum náttúrulega eins og allir aðrir að gera eitthvað í okkar málum. En ég held einmitt að það sé svo mikið hægt að gera í litlum samfélögum, þar getur verið auðveldara að ná í gegn hugarfarsbreytingum. Þannig er hægt að byggja á gömlum grunni en koma inn með þessa nýju sýn.“

Í dagskrá helgarinnar kennir ýmisra grasa; á morgun verða vörukynnigar á umhverfisvænum vörum. Á laugardag verður matarmarkaður, Reko afhending og örnámskeið um endurnýtingu. Á sunnudag er áætlaður fata- og skiptimarkaðaru auk örnámskeiðs. 

Umhverfisvænu vörurnar sem kynntar verða og Hús handana hefur til sölu eru meðal annars frá mena.is en Lára bendir á að það sé ekki endilega umhverfisvænast að panta hverja smávöru fyrir sig með pakkapósti. „Við viljum nota tækifærið og sýna að þessar umhverfisvænu vörur er aðgengilegar á Austurlandi. Það er gott að fólk viti að það þarf ekki að panta allt svona, það er hægt að fá það hjá okkur.“

Þá hefur Hús handanna sett sér umhverfisstefnu. „Við stefnum að því að kolefnisjafna fluttningskostnað af öllum vörum sem við flytjum hingað til okkar á árinu. Það er í skoðun núna hvernig, annað hvort förum við út að gróðursetja í vor eða nýtum eitthvað af þessum kerfum sem eru í boði til kolefnisjöfnunar,“ segir Lára.

Ennfrekmur telur Lára að margt væri hægt að laga í verslunar- og veitingarekstri á Austurlandi til að ná markmiðum um umhverfisvernd. „Til dæmis þegar maður verslar skyndibita, kannski bara litla samloku, þá er hún sett í frauðplastbakka. Sem er galið þegar sérvétta væri nóg. Það er svo margt óunnið og fólk er bara að gera hlutina af gömlum vana. Verslanir þurfa líka að hugsa sinn gang, hvað þær eru að selja og fara að gera athugasemdir við heildsala og byrgja. Ég hef tildæmis gert athugasemdir þegar við fáum sendar flíkur og hver og ein er innpökkuð í plast, kannski eitt sokkapar í sér poka. Ef að við byrjum ekki að gera eitthvað og segja eitthvað þá gerist ekkert.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.