Óttast um framtíð Stöðvarfjarðar ef leikskólinn lokar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. okt 2025 14:44 • Uppfært 02. okt 2025 15:35
Íbúar á Stöðvarfirði eru uggandi yfir tíðindum um að leikskólabörnum verði á næstunni ekið á Breiðdalsvík. Stjórnandi fræðslumála og skólaþjónustu hjá Fjarðabyggð segir það viðbrögð við mönnunarvanda að færa börnin á milli deilda innan sama skólans.
Austurfrétt greindi frá því í gær að loka þurfi leikskóladeildinni á Stöðvarfirði síðar í þessum mánuði vegna manneklu. Samkvæmt lögum þurfa tveir starfsmenn að vera í slíkri deild og er annar þeirra að hætta. Tilraunir til að ráða nýjan starfsmann hafa ekki borið árangur.
Tæknilega séð er einn og sami grunn- og leikskóli á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði en starf er á báðum stöðum. Á Stöðvarfirði eru þrjú börn, öll á elsta ári. Foreldrar þurfa það sem eftir er vetrar sjálfir að aka þeim á Breiðdalsvík.
Sérstaklega vont fyrir foreldra sem vinna norðan Stöðvarfjarðar
Bjarni Stefán Vilhjálmsson, formaður íbúasamtaka Stöðvarfjarðar og faðir eins barnsins, segir þetta þýða óhagræði fyrir foreldra þar. Um 20 mínútna akstur er á milli staðanna.
„Þetta er óþægilegt, til dæmis fyrir foreldra sem vinna á Reyðarfirði eða Fáskrúðsfirði. Þeir þurfa fyrst að skutla barninu á Breiðdalsvík og síðan mæta í vinnuna. Það var skoðað hvort börnin gætu farið í rútunni líkt og grunnskólabörnin en það gekk ekki upp.
Við hefðum viljað að það væri komið betur til móts við hópinn. Við fáum nokkrar mínútur aukalega frítt í vistun á morgnana og seinni partinn og aksturspening.
Ef það verður ófært milli staða þá þýðir það tekjutap fyrir foreldra sem þurfa að vera heima með börnin. Vegurinn í sunnanverðum Stöðvarfirði er leiðinlegur og það er ofanflóðahætta í Kambanesskriðunum. Rútan með skólabörnin fer ekki í ákveðnum vindstyrk en hvað með leikskólabörnin?“
Óttast að skortur á leikskóla fæli nýtt fólk frá
Áhyggjur Stöðfirðinga snúast ekki bara um leikskólastarfið í vetur, heldur til framtíðar. „Fólk er uggandi yfir þessum tíðindum og spyr hvernig við fáum til okkar fólk ef enginn leikskóli verður hér. Fólk flytur ekki til Stöðvarfjarðar ef keyra þarf leikskólabörnunum langar leiðir. Það fer að spyrja hvenær skólinn fari endanlega,“ segir Bjarni Stefán.
Stöðvarfjörður hefur frá árinu 2021 verið í átaksverkefni um þróun samfélags og atvinnu undir merkjum Brothættra byggða. Staðan í leikskólamálunum er enn erfiðari í því samhengi. „Allt sem við missum, sama hversu lítið það er, er svo mikilvægt.“
Lausn við tímabundinni manneklu
Líneik Anna Sævarsdóttir, stjórnandi skólaþjónustu og fræðslumála hjá Fjarðabyggð, segist skilja ótta Stöðfirðinga um framtíðina. Hún ítrekar að engin ákvörðun hafi verið tekin umfram þá sem nú liggur fyrir. Leysa þurfi þá manneklu sem komin er upp og það sé gert með flutningi innan deilda innan sama skólans.
Til stendur að auglýsa áfram með reglulegu millibili eftir starfsfólki í skólann. Hún segir að reynt hafi verið að finna starfsfólk, meðal annars sest niður með foreldrunum og rætt hvort á Stöðvarfirði byggi fólk sem vildi taka vinnuna að sér.
Hvað framtíðina varðar er staðan hins vegar sú að ekki hefur verið óskað eftir neinu leikskólaplássi á Stöðvarfirði frá næsta hausti. Líneik segir að skoða þurfi málin næst þegar ný umsókn berist.
Erfitt að manna leikskóla um allt land
Hún bendir á að víða um land sé erfitt að manna leikskóla. Annars staðar í Fjarðabyggð hafi vegna manneklu þurft að loka deildum tímabundið. Bjarni Stefán segir Stöðfirðinga gera sér vel grein fyrir því. „Við vitum að verkefnið er ekki einfalt ef það fæst ekki starfsfólk og Stöðvarfjörður er alls ekki eini staðurinn þar sem erfitt er að manna leikskóla.“
Aðspurð um hvernig komið verði á móts við foreldrana á Stöðvarfirði svarar Líneik að hún vilji ekki tjá sig opinberlega um það þar sem ekkert skriflegt liggi fyrir en útfærslan sé ljós eftir tvo fundi með foreldrum. Varðandi aksturinn, til dæmis í hvassviðri, bendir hún á að slíkar reglur séu á hendi akstursaðilans og bætir við að það geti í öllum skólum komið fyrir að börn komist ekki í skóla vegna veðurs.
Ekkert frekar laust starfsfólk í forskóla
Bjarni Stefán segir að foreldrarnir hafi viljað skoða möguleikann á svokölluðum forskóla, sem í raun er aðlögun fimm ára barna að væntanlegri grunnskólagöngu, því börnin þrjú séu öll á leið í grunnskóla næsta haust.
Líneik Anna segir þá hugmynd ekki hafa komið inn á sitt borð en áfram verði allar hugmyndir skoðaðar. Hún svarar þó að sú lausn sé mögulega ekki heldur fær þar sem almennt vanti fólk til starfa við Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla.
„Forskólinn kallar líka á starfsfólk. Skólinn í heildina er tæpur á fólki. Það væru fleiri möguleikar í stöðunni ef svo væri ekki. En við eigum í samtali við foreldrana og ætlum að halda því áfram. Það besta væri ef umræðan nú skilaði starfsmanni,“ segir hún að lokum.