Leikskólabörnin á Stöðvarfirði færast yfir í leikskólann í Breiðdalsvík
Leikskólabörn á Stöðvarfirði munu eftirleiðis slást í hóp leikskólabarnanna á Breiðdalsvík en þannig skal leysa mönnunarvanda sem til staðar er á Stöðvarfirði.
Í leikskóladeild Stöðvarfjarðar hafa hingað til verið tveir starfsmenn en færri mega þeir lögum samkvæmt ekki vera í leikskólum landsins. Annar starfsmaður deildarinnar er að hætta störfum og ekki hefur tekist að ráða nýjan aðila í staðinn að sögn Steinþórs Snæs Þrastarsonar skólastjóra.
„Við vorum að missa annan starfsmanninn út og engar umsóknir um starfið hafa borist. Þess vegna höfum við ákveðið að bjóða krökkunum að koma yfir á Breiðdalsvík þar sem við erum að stækka leikskóladeildina þar um eina stofu. Deildin á Breiðdalsvík er full í dag með þrettán börn en með einni stofu til getum við bætt við börnunum þremur frá Stöðvarfirði með góðu móti. Þannig má einnig nýta starfsfólkið betur og jafnvel bæta kennsluna þegar börnin öll verða á sama staðnum.“
Steinþór segir að líklega verði óskað eftir að foreldrar barnanna á Stöðvarfirði aki þeim til og frá ef samkomulag næst um slíkt en einhvers konar skólaakstur hefur einnig komið til tals.
„Staðan Stöðvarfjarðarmegin er sú í dag að þau þrjú börn sem þar eru eru öll á síðasta leikskólaári sínu og á næsta skólaári verður líklega ekkert barn á þeirri deildinni eins og þetta lítur út núna. Þannig að það er verið að skoða hvernig haga skuli málunum til lengri tíma litið svo best komi út fyrir alla aðila.“
Börn að leik á leiksvæði leikskólans á Breiðdalsvík en þau börnin munu senn fá félagsskap þriggja barna frá Stöðvarfirði. Mynd Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóli