Óttast að ný reglugerð geri út af við grásleppuveiðar

Kári Borgar Ásgrímsson, útgerðarmaður á Borgarfirði, óttast að ný reglugerð sjávarútvegsráðherra um hrognkelsaveiðar, verði til þess að gera út af þá sem hafa atvinnu af veiðunum og þau byggðarlög sem atvinnu hafa af þeim.

Þetta kemur fram í umsögn Kára um reglugerðina en frestur til að senda inn athugasemdir við hana rann út fyrir helgi. Fjöldi umsagna barst útgerðum og sveitarfélögum víða um land, þótt umsögn Kára sé eftir því sem Austurfrétt næst sú eina frá aðila á svæðinu frá Vopnafirði til Djúpavogs.

Í reglugerðinni er lagt til að samanlögð netalengd hvers báts verði 3.750 metrar á hverri vertíð en var 7.500 metrar á síðustu vertíð. Kári óttast að með þessu verði fjárhagslegum forsendum kippt undan veiðunum.

Metrafjöldinn endurspeglar fjölda neta sem hver bátur má nota. Grásleppusjómenn leggja netin og leyfa þeim síðan að liggja í nokkra daga, gjarnan 1-4 eftir veðri, áður en þeir vitja þeirra.

„Ég sé ekki grundvöll fyrir að fara af stað á veiðar með þessu fyrirkomulagi, og þó að ég vildi, á ég ekki eftir að fá neinn með mér il að draga net í 3-5 tíma og launin í samræmi við það. Það eru oft rúmar 50 mílur hjá mér í fyrstu bauju hjá mér og við höfum verið þrír í áhöfn á tveimur bátum. Sennilega er þetta síðasti naglinn sem þarf í líkkistuna, til að drepa grásleppuveiðar sem atvinnu. Þær gætu verið stundaðar áfram sem áhugamál,“ skrifar Kári.

„Í góðu veðri verður enginn vandi að draga þennan netafjölda á fjórum tímum. Þetta verður engin vinna,“ segir Kári í samtali við Austurfrétt.

Í umsögn Landssambands smábátasjómanna er einnig gerð athugasemd við breytinguna. Bent er á að fækkun neta þýði minni tekjur af veiðinni sem leiði til fækkunar í áhöfnum og minni nýliðunar. Þar kemur fram að fram til 2013 hafi mátt leggja 300 net en verið fækkað þá niður í 200 og síðan farið að miða við metrafjöldann. Samhliða þessum breytingum hafi það heyrt sögunni til að fjórir sjómenn væru í áhöfn hvers grásleppubáts og nú fari fjölgandi þeim bátum þar sem aðeins séu tveir. Í umsögn sambandsins er bent á að varasamt sé að aðeins tveir verði í áhöfn.

Kominn með nóg af eftirliti

Í reglugerðinni er einnig að finna ákvæði um að sé meðafli grásleppubáts frábrugðin meðafla annarra grásleppugáta geti Fiskistofa sett eftirlitsmann um borð í bátinn í einn dag. Sé talin ástæða til að eftirlitsmaðurinn sé áfram um borð fellur sá kostnaður á útgerðina.

Kári gerir athugasemdir við þetta og telur að betra sé að finna leið til að landa meðafla án þess að hann skerði kvóta frekar en að sjómenn „sleppi“ dauðum fiski. „Væri ekki nær að eyða orku þessara manna í að finna lausn á því vandamáli frekar en gera okkur öll að glæpamönnum?“

Þá segist hann frekar líta á það sem hlunnindi að fá stöku sel eða svartfugl í netin. „Það er sannarlega ekki eitthvað sem við hendum, þetta er veislumatur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.