Óskilamunir helgarinnar á tískusýningu Afréttarans

„Við köllum þetta kvöld Afréttarann, en þar kemur saman starfsfólkið okkar sem hefur unnið baki brotnu um helgina, já og heimamenn sem og allir aðrir sem vilja,“ segir Kristján Geir Þorsteinsson, verti í Fjarðaborg, um árlega tískusýningu óskilamuna Bræðsluhelgarinnar sem hefur undanfarin ár verið haldin á sunnudagskvöldi eftir Bræðslu.


Kristján Geir segir Afréttarann virkilega skemmtilegt kvöld. „Dagskráin er sáraeinföld, það er tískusýning óskilamuna héðan úr Fjarðaborg sem og frá Álfakaffi, en allir sem vilja eru fengnir til þess að vera módel. Auðvitað er þetta ekki aðeins gert til þess að skemmta okkur heldur til þess að reyna að koma mununum til síns heima.


Hátíðin fer alltaf afar friðsamlega fram, enda fólk dauðþreytt eftir helgina en með gleði í hjarta, allir hafa skemmt sér vel en eru að sama skapi fegnir að allt sé yfirstaðið. Í gær var einnig óskilavín á boðstólum sem og gjafabjórar frá erlendum ferðamönnum þannig að gestir lentu í óvæntri bjór- og vínsmökkun sem skemmdi ekki fyrir.“

Föðurland glataðist á dansgólfinu í Fjarðaborg
Hvað skyldi vera undarlegasti óskilamunurinn sem Kristján Geir man eftir? „Ég man nú alltaf eftir símtali sem við fengum eftir Bræðslu áður en við fórum að halda Afréttarann hátíðlegan. Það hringdi í okkur ung kona sem sagðist hafa tapað föðurlandinu sínu á dansgólfinu í Fjarðaborg. Þetta fannst okkur mjög skemmtilegt, að einhver hefði verið að dansa í föðurlandinu á barnum. Í ár fannst til dæmis getnaðarvarnarpilluspjald sem þá þjónar líklega ekki lengur sínum tilgangi.“

Hér má sjá Facebooksíðu Já sæll og alla óskilamunina.

Allir boðnir og búnir að hjálpa
„Þetta gekk alveg ótrúlega vel þrátt fyrir allt og við vorum bæði ánægð og hissa að sjá hversu vel var mætt á tónleikana sjálfa sem voru alveg frábærir,“ segir Ásgrímur Ingi Arngrímsson, verti í Fjarðaborg að aflokinni blautustu Bræðslu sögunnar.


Mikið vatnsveður var á Borgarfirði eystri um helgina þegar Bræðslan var haldin í 13 skipti. „Við vorum að halda fjölmennasta viðburð ársins í mestu rigningu ársins, en samanlögð úrkoma um helgina var alveg fáránleg og var sú mesta á landinu hér á Borgarfirði á laugardaginn, eða 42 millimetrar,“ segir Ásgrímur Ingi.
Ásgrímur Ingi segir þónokkra hátíðagesti hafa yfirgefið svæðið á laugardaginn. „Það var allt í lagi hjá þeim sem voru með góðan búnað, en kannski ekki í eins góðu lagi hjá þeim sem voru það ekki. Hópurinn sem fór heim var einfaldlega búinn að fá nóg af rigningunni og búinn að ná tveimur góðum kvöldum hjá okkur. Svo voru margir sem komu bara beint á tónleikana á laugardagskvöldinu. Það voru allir boðnir og búnir að hjálpa og bæjarbúar buðu fram stofugólf, sófa og hvað annað sem hjálpað gat í þessum aðstæðum.“

Gæslan á svæðinu var til fyrirmyndar
Ásgrímur Ingi segir að samdóma álit sé meðal þeirra sem standa að Bræðslunni að þeir séu nú aðeins reynslunni ríkari. „Við erum sammála um að veðrið muni aldrei verða verra en þá höfum við líka séð hvernig á að bregðast við og munum líklega yfirfara verkferla til þess að vera enn betur búin ef þetta gerist aftur. Gæslan á svæðinu var til fyrirmyndar en Björgunarsveitin Jökull var á vaktinni alla helgina.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.