Öryggi ferðamanna fyrirferðamest í mati Vegagerðarinnar

Öryggi vegfarenda og þýðing fyrir atvinnulíf eru þær þættir sem virðast vega þyngst í mati Vegagerðarinnar á því að betra sé að þjóðvegur 1 liggi framvegis um Suðurfjarðaveg í stað Breiðdalsheiði.

Þetta kemur fram í samantekt sem Vegagerðin vann fyrir ráðherra samgöngumála. Jón Gunnarsson ráðherra tilkynnti á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á föstudag að vegnúmerið yrði fært. Samantektin er dagsett 16. febrúar 2017 en hefur ekki fengist afhent fyrr en nú að ákvörðun ráðherra liggur fyrir.

Í matsblaði Vegagerðarinnar eru bornir saman tíu þættir fyrir Axarveg, Breiðdalsheiði og Suðurfjarðarveg sem kvarðaðir eru eftir hvort þeir henti vel, miðlungi vel eða illa.

Gengið er út frá því að leiðirnar séu að full uppbyggðar þannig ekki er metið hver kostnaðurinn sé af uppbyggingu leiðanna.

Þættirnir tíu eru: Vegalengd til Egilsstaða, hæð fjallvega á leið til Egilsstaða, vegalengd til Reyðarfjarðar, hæð fjallvega til Reyðarfjarðar, þýðing vega fyrir landbúnað, þýðing vega fyrir sjávarútveg og almenna flutninga, þýðing vega fyrir stóriðju og annan iðnað en fiskiðnað, öryggi ferðamanna að sumri, öryggi ferðamanna að vetri og þýðing veganna út frá umferð í dag.

Suðurfjarðarvegurinn er talinn henta vel í öllum tilfellum nema þegar horft er til vegalengdarinnar í Egilsstaði. Breiðdalsheiði er hins vegar talin henta illa í öllum tilfellum og aðeins miðlungi vel í lengdinni í Egilsstaði.

Öxi er talin henta vel hvað varðar vegalengdir í bæði Egilsstaði og Reyðarfjörð og miðlungi vel fyrir flutninga, landbúnað, sjávarútveg, öryggi ferðamanna að sumri til og miðað við umferð í dag.

Í ræðu sinni á föstudag sagði ráðherrann að uppbygging vegar yfir Öxi ætti að vera forgangsmál. Í skýrslunni er því spáð að Öxi muni að mestu yfirtaka hlutverk Breiðdalsheiðar, jafnvel sem Hringvegur.

„Með nýjum vegi yfir Öxi verður Breiðdalsheiði ekki lengur inni í myndinni sem aðalsamgönguleið,“ segir í samantektinni.

Í niðurlagi hennar segir að matsþátturinn öryggi ferðamanna skipti miklu enda sé öryggi á vegum eitt af meginmarkmiðum Vegagerðarinnar. Í rökstuðningi er bent á að leiðsögukerfi hafi tilhneigingu til að vísa á Hringveg sem aðalleið, óháð ástandi leiðarinnar.

Auðveldara sé að þjónusta láglendisvegi auk þess sem fjallvegirnir séu brattir og geti orðið hættulegir í hálku. Þá sé þokusælla á heiðunum.

Að öllu þessu metnu er leggur Vegagerðin það til að þjóðvegur 1 liggi um Fagradal og Suðurfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.