Þorsteinn í Eskju: Við fréttum um mengunarslysið frá Heilbrigðiseftirlitinu

eskifjordur_eskja.jpgÞorsteinn Kristjánsson, forstjóri Eskju á Eskifirði, segir að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki vitað um mengunarslys í fiskimjölsverksmiðju fyrirtækinsins fyrr en þeir fengu tilkynnningu um það frá yfirvöldum. Verktaki sá um löndunina. Eskja hefur tekið á sig kostnað vegna aðgerða sveitarfélagsins Fjarðabyggðar í sumar.

 

„Það var HAUST sem tilkynnti okkur um slysið,“ sagði Þorsteinn í samtali við Agl.is og vísar þar til yfirstjórnenda fyrirtækisins. „Það er eins og verktakinn (Tandraberg) hafi ekki áttað sig á alvarleika málsins eða verið nógu meðvitaður um hvað gerðist.“

Í byrjun júlí var blóðvatni úr fiskimjölsverksmiðju, þar sem verið var að landa úr togara, dælt inn á neysluvatnslögn Eskifjarðarbæjar. Tæp vika leið áður en alvarleiki málsins varð ljós og var íbúum þá gert að sjóða neysluvatn í tíu daga. Tæpir tíu tímar liðu frá því slysið varð þar til yfirvöldum var tilkynnt um það, þá af starfsmanni Sundlaugarinnar á Eskfirði.

Þorsteinn segir að gripið hafi verið til ráðstafana hjá Eskju til að atvik sem þetta endurtaki sig ekki. Vatn af bæjarlögninni var tekið inn á tanka hjá Eskju og síðan dælt út í skipið til að bleyta upp í hráefninu áður en því var dælt í land. Mismunur á þrýstingi varð til þess að blóðvatnið fór inn á neysluvatnslögnina. „Við tökum ekki lengur úr bæjarlögninni inn á tankana.“

Í greinargerð Heilbrigðiseftirlits Austurlands og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar um  málið er velt upp þeim möguleika að þeir sem vanræki tilkynningaskyldu í svona málum séu sektaðir. Þorsteinn segir Eskju ekki hafa verið beitta slíka úrræðum.

„Við höfum engar sektir fengið en við sögðum strax að við tækjum á okkur þann kostnað sem af þessu hlytist og við höfum borgað þá reikninga sem bærinn hefur sent okkur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.