Opnun rannsóknaseturs HÍ frestað um ár: Því miður eina leiðin sem okkur er fær

Opnun rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Egilsstöðum verður frestað um ár vegna fjárskorts skólans. Staða akademísks sérfræðings verður framlengd á meðan. Bæjarráð Fljótsdalshéraðs lýsir yfir vonbrigðum sínum en forstöðumaður hjá skólanum segir stefnu skólans áfram óbreytta.


„Ástæðan er fyrst og fremst sú fjárhagsstaða sem skólinn og allar deildir hans og stofnanir standa frammi fyrir, að ná ekki endum saman. Allar einingar þurfa að fara yfir sín mál og fram undan er ráðningabann eða mjög strangt aðhald í ráðningum.

Einingar eins og okkar, sem eiga erfitt, fá ekki samþykki til að ráða í ný störf þannig ég er mjög fegin að við höfum þetta úrræði,“ segir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Ráðið var í stöðu akademísks sérfræðings á Austurlandi árið 2014 til tveggja ára með möguleika á framlengingu til eins árs í viðbót. Sú heimild er nú nýtt. Hins vegar stóð til að auglýsa stöðu forstöðumanns nú í janúar til fimm ára og opna rannsóknasetrið á Egilsstöðum formlega í vor.

„Stefna okkar og hugur er enn óbreyttur en með þessu gefst okkur tími til að undirbúa betur að hefja starfið 2018. Okkur þykir mjög leitt að staðan sé núna þessi en þetta er eina leiðin sem okkur er fær.“

Fleiri starfsmenn bætist við fljótt

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs samþykkti á fundi sínum í síðustu viku yfirlýsingu um stofnun rannsóknaseturs á Egilsstöðum og áframhald rannsókna á Austurlandi en lýsti um leið vonbrigðum sínum með tafirnar.

Björn Ingimarsson bæjarstjóri segir skilning vera á ákvörðun Háskólans út af þeirri stöðu sem uppi sé. Enginn bilbugur sé fyrir hendi til að halda áfram með verkefnið. Vonast er til að starfsemin vindi fljótt upp á sig þegar hún kemst í gang.

„Við höfum fulla trú á að af þessu verði og heyrum á okkar tengiliðum að menn ætla að koma þessu á. Með forstöðumanninum verður til staða til fimm ára og við sjáum fyrir okkur að þá kæmi inn annað stöðugildi þannig að hin eiginlega rannsóknarstarfsemi fari að gera sig.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.