Ökumenn taka mikla áhættu í framúrakstri

Yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi hefur áhyggjum af miklum hraða á vegum í umdæminu. Oft reyni menn framúrakstur við erfiðar aðstæður sem bjóði hættunni heim.


„Við erum búnir að kæra yfir 50 ökumenn fyrir of hraðan akstur síðustu þrjár vikur. Við erum að fá ökumenn á allt að 140-150 km hraða,“ segir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn.

Lögreglan hefur verið sýnileg á austfirskum vegum í sumar og haft í nógu að snúast en auk hraðamælinga er fylgst með ástandi ökutækja og ökumanna. Jónas segir að lögregluþjónar sem farið hafi upp á Fagradal í morgun til að sinna eftirliti hafi snúið aftur á stöðina með 18 skýrslur eftir rúmlega þriggja tíma ferð.

Myndband sem sýndi glæfralegan framúrakstur við afleggjarann til Vopnafjarðar á Háreksstaðaleið vakti mikla athygli á vefmiðlinum Vísi í gær. Jónas segir það því miður ekki eina dæmið.

Ástæða sé til að hafa áhyggjur af því þegar umferð þjappist saman vegna bíla sem fari hægt yfir, mögulega með vagna í eftirdragi. „Það veldur pirringi hjá þeim sem á eftir koma og vilja fara hraðar en vegakerfið okkar býður ekki alltaf upp á framúrakstur. Þá taka menn mikla áhættu í framúrakstri.“

Von er á talsverðri umferð um helgina í kringum verslunarmannahelgina, einkum í Egilsstaði þar sem Unglingalandsmót UMFÍ fer fram. „Það verður eflaust mikil umferð í kringum það en annars er allt í kringum mótið gott og frábært að fá það hingað.“

Jónas segir síðustu helgi hafa gengið vel en þá fór fram Bræðslan á Borgarfirði og Franskir dagar á Fáskrúðsfirði. Nokkur erill hafi verið en engar stóruppákomur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.