Óhöppin gerast líka í góðu veðri

Austfirskar björgunarsveitir voru kallaðar þrisvar út á fjórum dögum í síðustu viku vegna göngufólks sem lent hafði í villu. Brýnt er fyrir göngufólk að huga að veðurspám og útbúnaði áður en farið er af stað.


„Það er hægt að skrifa öll þessi útköll á lélegt skyggni eða þoku og slagveður,“ segir Sveinn Halldór Oddsson í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Austurlandi.

Fyrsta útkallið var á miðvikudagskvöld þar sem göngukona var villst hafði í Seyðisfirði. Aðfaranótt föstudags var leitað að göngufólki á Lónsöræfum sem orðið hafði viðskila við félaga sína. Hinir týndu komust í skála í Egilsseli, nokkru á eftir öðrum.

Hópurinn gat hins vegar ekki látið vita af sér og segir Sveinn að farið verði yfir fjarskiptamál á svæðinu í framhaldinu.

Á laugardag var síðan grennslast fyrir um hóp sem var á leið á Borgarfjörð. Hópurinn var á sinni leið og miðaði þokkalega. Sveinn segir engan hafa verið í vandræðum þar en grennslast fyrir um hópinn í varúðarskyni.

Sumarið hefur verið rólegt hjá austfirsku björgunarsveitunum en svo urðu útköllin þrjú nánast í einu. Sveinn bendir á að nú sé sá tími sem vinsælastur sé í fjallgöngur og þegar búið sé að ákveða dagsetningar með löngum fyrirvara sé erfitt að hætta við.

Mikilvægt sé að vanda útbúnaðinn. „Ef menn eru vel útbúnir þá komast þeir töluvert. Ef menn lenda í þoku dugar ekkert nema GPS tæki. Það er mikilvægt að vera bæði með staðsetningartæki og fjarskiptatæki. Það er ekki hægt að treysta á GSM símana nema að litlu leyti, sérstaklega ekki í lengri ferðum.“

Aðspurður segir Sveinn erfitt að draga það ályktun að menn hefðu betur haldið kyrru fyrir í síðustu viku. „Það er mikilvægt að fylgjast með veðurspám, bæði það og skyggnið geta orðið verra en menn reikna með. Óhöppin gerast alltaf, líka í góðu veðri.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.