Óbreytt staða í loðnuleit

Engar nýjar forsendur eru komnar fram sem breyta forsendum veiðiráðgjafar í loðnu eftir leit úti fyrir Austfjörðum og Suð-Austurlandi um helgina. Næst verður haldið til norðurs.

Fimm skip tóku þátt í leitinni um helgina. Ásgrímur Halldórsson frá Hornafirði er enn að leita úti fyrir Norð-Austurlandi.

Tvö norsk rannsóknarskip, Roaldsen og Åkeröy komu til Seyðisfjarðar í morgun til að leita skjóls undan óveðri. Þangað kom líka skip Hafrannsóknastofnunar, Árni Friðriksson, til að gera við bilun. Polar Amaroq fór til Norðfjarðar til að laga bilaðan hlera. Líklegt er að skipin verði í höfn þar til veðrið batnar á leitarsvæðinu.

Að sögn Þorsteins Sigurðssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun, stendur næst til að fara norður fyrir land. Fregnir hafa borist af því að skip á ferð undan sunnanverðu landinu hafi orðið vör við loðnugöngur en hann segir að þrátt fyrir leit þar um helgina hafi ekki fengist neinar upplýsingar sem breyti forsendum þannig að hægt sé að hefja loðnuveiðar.

Mörg austfirsk skip hafa þess í stað einbeitt sér að kolmunnaveiðum vestur af Írlandi. Fiskurinn kom á miðin um miðja síðustu viku og síðan hefur veiðin gengið ágætlega.

Á miðunum eru Guðrún Þorkelsdóttir, Jón Kjartansdóttir eldri og Beitir. Venus er á heimleið til Vopnafjarðar með fyrsta farminn, Jón Kjartansson kom til Eskifjarðar í gærmorgun, Hoffell til Fáskrúðsfjarðar um helgina og Bjarni Ólafsson til Seyðisfjarðar. Þá eru komin 5.800 tonn til Norðfjarðar, bæði af skipum Síldarvinnslunnar og norskum.

Mynd: Síldarvinnslan/Hlynur Sveinsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.