Nýtt vinnslukerfi hjá LVF eykur afköstin um 70%

Nýlega undirrituðu Loðnuvinnslan (LVF) og Skaginn 3X samning um nýtt vinnslukerfi LVF sem auka mun sjálfvirkni og vinnslugetu. Stefnt er að því að auka afköst vinnslunnar í allt að 400 tonn á sólarhring sem er um 70% afkastaaukning frá því sem nú er. Nýja kerfið er hannað til að framleiða hágæða vöru á sem hagkvæmastan hátt.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt hefur verið á vefsíðu LVF. Þar segir að þar sem uppsjávarvinnsla er háð viðkvæmum ytri þáttum eins og árstíðabundinni auðlind er mikilvægt að ná að nýta hana á réttum tíma og með réttum aðferðum. Tæknilausnir Skagans 3X eru því hannaðar til að viðhalda gæðum vörunnar og ná með því hámarksafrakstri í vinnslu. Með þessum endurbótum verður fyrirtækið mun betur í stakk búið til þess að nýta auðlindina sem best á næstu vertíðum.

Frystihús LVF á Fáskrúðsfirði er sérhæft til vinnslu á uppsjávarfiski, loðnu, síld og makríl. Loðnan er heilfryst á markaði í Austur-Evrópu og Asíu en einnig eru hrogn unnin fyrir sömu markaði

"Það skiptir miklu máli að geta unnið svona náið með hönnuðum Skagans 3X eins og við höfum gert í þessu verkefni,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri LVF í tilkynningunni. „Sérfræðiþekking þeirra og reynsla okkar hefur skilað sér í lausn sem mun bæði auka sjálfvirkni og bæta framleiðslugetuna í uppsjávarfrystingunni hjá okkur.“

Uppsjávarkerfin frá Skaganum 3X eru afar skilvirk og hefur tæknin þjónað nokkrum stærstu uppsjávarvinnslum í heimi. Nýja kerfið sem sett verður upp hjá LVF inniheldur pokakerfi, nýja plötufrysta sem fara afar vel með vöruna og sjálfvirkt brettakerfi. Búnaðurinn verður tengdur bæði vélum sem fyrir eru og nýjum búnaði frá öðrum framleiðendum, þar með töldum þjörkum sem auka enn sjálfvirknina í frystihúsinu.

Skaginn 3X hefur mikla reynslu í hönnun og uppsetningu á stórum heildarkerfum fyrir uppsjávarvinnslu. Það tók því ekki langan tíma fyrir þrjá sérfræðinga fyrirtækisins að hanna kerfið fyrir LVF. Þeir mættu austur, teiknuðu kerfið upp á staðnum og tæpum mánuði seinna var samningur undirritaður.

„Við gripum boltann og unnum hratt og vel með Fáskrúðsfirðingum. Við höfum sett upp kerfi hjá LVF áður og það er því ánægjulegt að geta unnið með þeim áfram og boðið lausnir sem henta þeirra þörfum,“ segir Ingvar Vilhjálmsson svæðissölustjóri Skagans 3X „LVF teymið var mjög vel undirbúið þannig að það var auðvelt og fljótlegt fyrir okkur að hanna kerfið “

Mynd: Frá vinstri: Þorri Magnússon – framleiðslustjóri (LVF), Friðrik Mar Guðmundsson – framkvæmdastjóri (LVF), Ingvar Vilhjálmsson – svæðissölustjóri (Skaginn 3X), Steinþór Pétursson – skrifstofustjóri (LVF), Einar Brandsson – söluhönnuður (Skaginn 3X), Rúnar Björn Reynisson – vélahönnuður (Skaginn 3X)/lvf.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.