Nýtt skipurit Fjarðabyggðar samþykkt

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á aukafundi sínum í gær nýtt skipurit sveitarfélagsins. Því er meðal annars ætlað að bregðast við athugasemdum sem komu fram í nýlegri stjórnsýsluúttekt.

Það var Deloitte sem gerði úttektina en í henni var meðal annars gagnrýnt að ábyrgð sviða og stjórnenda á verkefnum væri stundum óskýr sem kæmi niður á samvinnu, forgangsröðun og eftirfylgd verkefna.

Samkvæmt nýja skipuritinu skiptist bæjarskrifstofan í tvö fagsvið og tvö stoðsvið, sem starfa þvert á fagsviðin, auk skrifstofu bæjarstjóra sem ber meðal annars ábyrgð á stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Stjórnsýslu- og þjónustusvið lagt niður


Stjórnsýslu- og þjónustusvið verður lagt niður. Nýtt mannauðs- og umbótasvið tekur við hluta af verkefnum þess. Starf mannauðsstjóra verður lagt niður enda verið autt í tæpt ár en ráðinn verður sviðsstjóri.

Skrifstofa bæjarstjóra, sem bæjarritari mun veita forstöðu, tekur við verkefnum stjórnsýslu, upplýsingatækni og þjónustu. Starf atvinnu- og þróunarfulltrúa verður lagt niður en bæjarstjóri með aðstoð sviðsstjóra og eftir atvikum annarra starfsmanna annast þau verkefni sem fulltrúinn hefur sinnt.

Stöðugildum fjölgar ekki


Fyrr í þessum mánuði voru samþykktar breytingar á nefndum Fjarðabyggðar í samræmis við fagsviðin. Engar breytingar eru á fjölskyldusviði en undir öðrum lið á fundinum gær voru samþykktar viðamiklar breytingar á fræðslustofnunum Fjarðabyggðar.

Framkvæmdasvið mun framvegis heita skipulags- og framkvæmdasvið, líkt og nefndin sem vinnur með því, og fjármálasvið mun kallast fjármála- og greiningarsvið.

Breytingar verða á stöðugildum milli stoðsviðanna tveggja, það er fjármálasviðsins annars vegar og mannauðssviðsins hins vegar sem og skrifstofu bæjarstjóra en stöðugildum fjölgar ekki. Bæjarstjóri fylgir breytingunum eftir.

Tillaga bæjarráðs, sem fer með hlutverk stjórnkerfisnefndar, var samþykkt samhljóða og án umræðu á bæjarstjórnarfundinum í gær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.