Ný lýsing tekin í notkun í tilefni af 50 ára afmæli Egilsstaðakirkju

Nýr útiljósabúnaður verður tekinn í notkun við Egilsstaðakirkju að lokinni tónlistarmessu á sunnudagskvöld. Vígsla ljósanna er um leið fyrsti viðburðurinn í tilefni 50 ára afmælis kirkjunnar.

Í tilkynningu kemur fram að rúmt ár sé síðan ákveðið hafi verið að kaupa og setja upp útilýsinguna. Slíkt hafi verið tímabært því núverandi kastarar séu litlir og alltaf verið ætlaðir til bráðabirgða.

„Ljósaverkefnið er hluti af þeim framkvæmdum sem verið hafa við kirkjuna undanfarið ár og hafa aðeins verið mögulegar vegna þeirrar fjármögnunar sem Egilsstaðasókn hefur notið frá Jöfnunarsjóði sókna,″ segir Eydís Bjarnadóttir, formaður sóknarnefndar.

Nýju ljósin samanstanda af 24 kösturunum á fjörum staurum umhverfis kirkjuna, auk sérstakra kastara fyrir turninn. Birtan á að vera hlý auk þess sem búnaðurinn hefur ýmsa möguleika, eins og sýnt verður á sunnudag.

Starfsmenn Tréiðjunnar Einis undir forustu settu upp og tengdu ljósin, sem reyndist tímafrekt enda stendur kirkjan á klöpp á Gálgaási. Sigurður Sigurjónsson og Guðmundur Halldórsson leiddu vinnuna fyrir hönd Einis en Sveinn Jónsson verkfræðingur fyrir hönd sóknarnefndarinnar.

Egilsstaðakirkja var vígð 16. júní árið 1974. Þann dag í sumar verður hátíðarmessa með biskupi Íslands. Sýning á handverki sem tengist trú og kirkju verður sett uppi í Sláturhúsinu og í haust verða afmælistónleikar og afmælishátíð barna.

Við messuna á sunnudagskvöld flytja nemendur Hlínar P. Behrens söngkennara trúarlega tónlist, meðal annars kafla úr verkinu Stabat mater eftir Pergolesi. Kór Egilsstaðakirkju syngur einnig undir stjórn Sándors Kerekes organista. Sóknarprestur þjónar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.