Ný flugstöð í Reykjavík á næsta ári?

Samgönguráðherra vonast til að byrjað verði að reisa nýja flugstöð á Reykjavíkurflugvelli strax á næsta ári. Ekki sé endilega víst að ríkið verði framkvæmdaaðilinn.


Þetta kom fram á fundi ráðherrans og vegamálastjóra með Austfirðingum í síðustu viku þar sem hann var spurður út í málefni innanlandsflugsins.

„Undirbúningur við að byggja nýja flugstöð við Reykjavíkurflugvöll er á fullu. Aðstaðan þar nú er hvorki boðleg farþegum né starfsfólki. Ég geri mér vonir um að hægt verið að byrja á næsta ári.“

Jón viðurkenndi að ekki væru komnir fjármunir í verkið frá ríkinu. Það þyrfti hins vegar ekki að tefja verkið. „Það getur hver sem er byggt flugstöð. Það er fullt af aðilum sem vilja byggja og þá er komin aðstaða fyrir þá sem vilja fljúga.“

Jón var einnig spurður út í raftengingu skipa sem liggja í höfnum þannig þau þurfi ekki að keyra á olíu á meðan.

Jón svaraði því til að allt að 10 megavatta afl þyrfti í hverja höfn. Það væri dýr framkvæmd en undirbúningsvinna væri komin af stað.

Hann hafnaði því að öll orkan sem til þyrfti væri þegar í raforkukerfinu og þar af síður að hægt væri að afhenda alls staðar þarf sem þyrfti. Frumskilyrði væri að styrkja dreifikerfið en það hefði gengið hægt.

Landsnet hefði ekki getað lagt línur í níu ár „út af endalausum kærum og deilum út samkvæmt reglum sem við höfum sjálf sett. Í Blöndulóni svamla um megavött sem engum nýtast því við höfum ekki getað lagt Blöndulínu 4 í austur.“

Hann sagði orkuna eina af frumforsendum vaxandi byggðar á næstu árum, til dæmis við uppbyggingu gagnavera sem væru „mjög áhugaverður kostur í uppbyggingu atvinnulífsins á næstu árum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.