Nýr leikskóli heitir Tjarnarskógur

skogarland_leikskoli_egs.jpg
Nýr sameinaður leikskóli á Egilsstöðum heitir Tjarnarskógur. Nýr leikskólastjóri er kominn til starfa og unnið að því að lægja þær öldur sem sköpuðust við sameiningu leikskólanna Tjarnarlands og Skógarlanda síðasta vetur.

Guðný Anna Þóreyjardóttir er nýr leikskólastjóri og kom til starfa í lok júní. Ingunn Hera Ármannsdóttir verður aðstoðarskólastjóri. Ráðning Guðnýjar Önnu, sem áður var aðstoðarskólastjóri í Hafnarfirði, var nokkuð umdeild og barst bæjaryfirvöldum á Fljótsdalshéraði mótmælabréf og kröfur um rökstuðning við ráðninguna.

Sameiningarferlið í heild sinni olli umtalsverðum deilum. Í voru kröfðust foreldraráð og starfsmenn þess að hætt yrði við það allt. Í sumar báðust fræðslunefnd og bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs afsökunar á þeim mistökum að hafa ekki sent foreldraráðum leikskólanna beiðni um umsögn á breytingum á skipulagi leikskólanna með formlegum hætti. Litið hafi verið svo á að með almennum fundi sem öllum foreldrum var boðið á hafi foreldrum boðist að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Fulltrúi foreldra átti að auki sæti í samráðshópi um sameiningu leikskólanna.

Í bókun bæjarstjórnar er ítrekað að leitast hafi verið við að hafa samráð við starfsfólk um framkvæmd sameiningarinnar en jafnframt verið ljóst að ekki hafi verið hægt að verða við öllum kröfum sem fram komu. „Bæjarstjórn ítrekar mikilvægi þess að allir aðilar taki nú höndum saman um uppbyggingu og framþróun starfsemi á nýjum og sameinuðum leikskóla.“
 
Áætlað er að 220 börn verði í leikskólum á Fljótsdalshéraði í vetur en þeir eru að auki starfræktir í Brúarási, Fellabæ og á Hallormsstað. Tjarnarskógur er stærstur með um 170 börn. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.