Norsk loðnuskip með fyrstu loðnuna til Austfjarða

Norska loðnuskipið Fiskebas landaði fyrstu loðnunni á Austfjörðum á föstudag þegar það kom inn til Fáskrúðsfjarðar. Fleiri skip hafa fylgt í kjölfarið, bæði þar og á Norðfirði.


Fiskebas kom aftur í gær og kom því samtals með 350 tonn. Í morgun kom Eros með 650 tonn til Fáskrúðsfjarðar og Kings Bay bíður löndunar með 500 tonn.

Á laugardag kom færeyska skipið Norðingur með 1870 tonn. Þá eru M.Yttestad og Liafjord á leiðinni með samanlagt tæp 300 tonn.

Tveir norskir bátar lönduðu á Norðfirði í gær. Gardar, áður Beitir NK, 300 tonnum og Kings Bay 600 tonnum. Að því er fram kemur í frétt frá Síldarvinnslunni var mikil áta í loðnunni og fór því nánast ekkert af henni til manneldisvinnslu.

Þá hefur Polar Amaroq, sem er í eigu grænlensks dótturfélags Síldarvinnslunnar og var þar áður Gardar, verið á veiðum og fékk 400 tonn austur af Langanesi á föstudag. Með um borð eru rannsóknarmenn frá Hafrannsóknarstofnun. Skipið var í morgun norðvestur af Færeyjum.

Af 57 þúsund tonna loðnukvóta sem veiða má innan íslenskrar lögsögu koma aðeins rúm 11 þúsund tonn í hlut íslenskra skipa. Það er í mörgum tilfellum aðeins ein ferð fyrir skipin og er búist við að þau bíði sem lengst í von um verðmætari loðnu, að því gefnu að lausn náist í kjaradeilu sjómanna.

Norðmenn fá hins vegar um 40 þúsund tonn af loðnukvótanum auk þess sem Færeyingar og Grænlendingar fá einnig skerf af honum.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.