„Nógu brjálaður til að gera þessa mynd

Ásgeir hvítaskáld Þórhallsson viðskiptafræðingur og skáld frumsýndi kvikmynd sína „Kjarval og Dyrfjöllin“ í Bíó Paradís í gær. Myndin verður svo frumsýnd hér fyrir austan í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardag.

 

Hugmyndin að myndinni kviknaði árið 2011. Þá byrjaði Ásgeir að kynna sér tíma Kjarvals á Austurlandi. Ásgeir hófst síðan handa við handritaskrif og eftir að hafa endurskrifað endurskrifað handritið nokkrum sinnum og varið einu og hálfu ári í tökur á myndinni var hún frumsýnd í gær.

„Það var stútfullur salur og fólk kom skælbrosandi út,“ segir Ásgeir ánægður og bætir við að hann hlakki til að frumsýna myndina eystra. 

Myndin fjallar um veru listmálarans Jóhannesar S. Kjarvals á Austurlandi og samskipti hans við fólkið í sveitunum í kring. 

Kjarval dvaldi fyrst um sinn í tjaldi í Hvammi stutt frá Ketilstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Svo fór að bóndinn á Ketilstöðum gaf honum landsskikann og byggði meira að segja kofa svo færi betur um listmálarann. Hann kom reglulega austur eftir það og bjó í kofanum.

Leikin heimildarmynd

Myndin er heimildarmynd með leiknum atriðum. Með hlutverk Kjarvals fer leikarinn gamalkunni Jón Hjartason. Leikarar úr Leikfélagi Fljótsdalshéraðs fara með önnur hlutverk. Ásgeir segir að eini fjárstyrkurinn sem hann hafi fengið til gerðar myndarinnar hafi verið frá sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. „Sá styrkur gerði mér kleift að ráða Jón í hlutverkið og hann gerir þetta mjög vel,“ segir Ásgeir. 

„Kjarval var mikill persónuleiki og margir þekkja vel til hans. Þetta var samt ein af þessum ósögðu sögum sem einhver þurfti að segja. Ég er bara nógu brjálaður að fara út í þetta,“ segir Ásgeir á léttum nótum. 

Tvær hliðar listamannsins

Við undirbúning myndarinnar talaði Ásgeir við fólk sem þekkti til listamannsins og man eftir honum. Meðal annars hafi hann hitt hitt tvær systur sem þekktu Kjarval. Hann komst líka að ýmsu áhugaverðu um listamanninn fræga. 

„Hann var til dæmis alltaf voðaleg fígúra í blaðaviðtölum og fór í eitthvert hlutverk. Honum var bara illa við blaðamenn. Lét illum látum. 

En eftir að hafa rætt við fólk og lesið mér til komst ég að því að Kjarval var mjög hjartahlýr maður og tengdist krökkum og fólki í sveitunum í kringum Hvamm afskaplega vel. Fólkið bar virðingu fyrir honum og talaði fallega um hann,“ segir Ásgeir 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.