Nemendur gefa út dagatal með afmælisdögum allra í bænum

„Með þessu verkefni samþættum við námsefni í upplýsinga- og tæknimennt og íslensku,“ segir Jóna Björg Sveinsdóttir, umsjónarkennari við Grunnskólann á Borgarfirði eystra, en nemendur skólans gefa árlega út dagatal með afmælisdögum allra íbúa staðarins.


„Í rauninni stálum við þessari góðu hugmynd frá Brúarásskóla fyrir ellefu eða tólf árum og síðan hefur dagatalið verið gefið út árlega. Oftast er efnið í dagatalinu staðbundið og tengist okkar heimabyggð. Það hafa verið ljóð, uppskriftir frá íbúum eða sögur eftir krakkana. Í ár þemað sögur og sagnir frá Borgarfirði, Víkum og Loðmundarfirði. Sumar sögurnar eru stuttar og því teknar beint upp úr heimildum en aðrar eru lengri og þar fá nemendur tækifæri á að æfa sig í því að gera útdrætti, þannig að við tengjum þetta eins og við mögulega getum við námsgreinarnar,“ segir Jóna Björg.

„Það eru allir á dagatalinu“
Myndir úr skólastarfinu prýða dagatalið ár hvert auk þess em hver og einn íbúi fær sinn afmælisdag skráðan á réttan stað. „Það eru allir á dagatalinu. Eða, þetta er þó mjög óábyrg útgáfa, kannski lenda einhverjir ekki á því sem eiga lögheimili hér en við bara vitum það ekki. Að sama skapi eru aðrir inn á því sem eru mikið hér en þó með sitt lögheimili annarsstaðar. Það eru um 100 íbúar á staðnum þannig að skráðir afmælisdagar eru einhversstaðar í námunda við þá tölu.“

Sérstaklega gaman að velja myndir
Fjórir nemendur eru núna í skólanum og rennur ágóðinn af sölu dagatalsins í ferðasjóð þeirra. „Okkur er alltaf vel tekið og við sendum meira að segja dagatöl út fyrir bæinn.

Þessi vinna gefur nemendum mikið, fyrir utan fróðleik þá þjappar verkefnið hópnum saman, það styrkir hann koma einhverri afurð frá sér í sameingu. Hópurinn þarf að komast að niðurstöðu með eitt og annað og taka tillit til óska hvers og eins. Þeim þykir skemmtilegt að spá í aldur og afmælisdaga, en unnið er með ártöl og fæðingardaga hvers og eins. Það er þó sérstaklega vinstælt að velja myndir en þá þarf að fara yfir safnið og rifja upp hvað við höfum gert saman frá því síðasta dagatal kom út.“

Meðfylgjandi mynd er á forsíðu dagatalsins í ár og er frá því nemendur hreinsuðu fjörur í vor. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.