Nefnd fékk tvo gangakosti til að skoða

Nefnd, sem Jón Gunnarsson þáverandi samgöngumálaráðherra skipaði fyrir tæpu ár, fékk til skoðunar tvo kosti fyrir hugsanleg jarðgöng til Seyðisfjarðar. Tafir hafa orðið á skilum nefndarinnar vegna illviðráðanlegra ástæðna.

Á framboðsfundi á Seyðisfirði í síðustu viku var skýrt frá því að í erindisbréfi nefndarinnar hefði henni verið falið að skoða tvo kosti, annars vegar leið undir Fjarðarheiði, hins vegar göng sem myndu tengja saman Seyðisfjörð, Fljótsdalshérað og Mjóafjörð.

„Það er engin launung að verið er að reyna að taka upp erindisbréfið og fá þriðja kostinn inn,“ sagði Adolf Guðmundsson, annar tveggja Seyðfirðinga sem situr í nefndinni.

Adolf var ekki í hópi frambjóðenda en svaraði þegar sérstaklega var spurt á fundinum út í hvað stæði í erindisbréfi nefndarinnar.

„Það er ljóst að okkar verkefni var að leita leiða til að leysa vetrareinangrun Seyðisfjarðar og í okkar huga er ljóst hver sú leið er,“ sagði Arnbjörg Sveinsdóttir, fráfarandi forseti bæjarstjórnar sem einnig á sæti í nefndinni.

„Það er augljóst að meirihluti bæjarbúa hefur mjög ákveðnar skoðanir. Leiðarvalið hefur verið skoðað mjög lengi og við vitum hvar við nýtum þjónustuna og hverjar okkar þarfir eru. Þess vegna töldum við ekki þörf á nefndinni.

Ég held hins vegar að hún verði til góðs þegar hún skilar af sér. Við höfum tínt og lagt saman sérfræðivinnu og fagþekkingu. Það mun skila sér í niðurstöðum sem verður mjög erfitt að mótmæla og styrkir okkur og stjórnvöld í að taka nauðsynlegar ákvarðanir í framhaldinu. Sama hverjir hafa haldið áfram þessari umræðu sem urgað hefur taugarnar í okkur Seyðfirðingum að undanförnu.“

Dráttur hefur orðið á vinnu nefndarinnar vegna alvarlegra veikinda eins þeirra sem skipaðir voru í hana. Sá mun vera á batavegi og er von að nefndin skili af sér nú í júní.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.