Nauðsynlegt að skilgreina orkuvinnslusvæði

Skiptar skoðanir eru meðal frambjóðenda til sveitarstjórnar Múlaþings um raforkuvinnslu í sveitarfélaginu. Almennt virðist athugun á mögulegum vindorkusvæðum talin af hinu góða.

Spurt var um stefnu framboðanna til raforkuvinnslu á framboðsfundi sem Austurfrétt/Austurglugginn stóð að ásamt Múlaþingi á laugardagskvöld. Framjóðendur voru sérstaklega inntir eftir afstöðu til Geitdalsvirkjunar og vindorku.

„Orkuvandræði voru eitt af því fyrsta sem ég rakst á þegar ég flutti austur með lítið fyrirtæki. Ástandið eftir að Fljótsdalsvirkjun var fyrst sett af stað var svo slæmt að varla var hægt að hafa tölvu í gangi.

Við erum fylgjandi vatnsaflsvirkjunum. Hamarsvirkjun og Geitdalsvirkjun eru í athugun og þær eiga að fara í gegnum lögformlegt ferli. Því miður hefur ríkið staðið í vegi fyrir því.

Annars hefðum við gjarnan viljað að aðrir aðilar ynnu að rannsóknum og virkjunarhugmyndum en nú eru, sem eru einkaaðilar. Ég hefði viljað sjá HEF veitur verða orkufyrirtæki Múlaþings og virkja í framtíðinni,“ sagði Þröstur Jónsson, oddviti Miðflokksins og bætti því við að flokkurinn legðist gegn uppsetningu vindmylla.

Telja nóg virkjað

Pétur Heimisson, frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, sagðist framboðið ekki á móti vindorku en ákveða þyrfti hvar hennar væri aflað. Hann bætti við að skoða þyrfti hve mikla orku þyrfti hverju sinni og treysta þyrfti innviði, svo sem flutningskerfið, til að tryggja afhendingu. Hann vísaði til nýlegra orða forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur um að ekki þyrfti að virkja meira að sinni og bætti við: „Við teljum nóg virkjað á Austurlandi.“

Oddviti framboðsins, Helgi Hlynur Ásgrímsson, sagðist ekki vilja virkja Geitdalsvirkjun og vernda Hraunasvæðið. Eins legðist hann gegn vindmyllum „úti á miðju Héraði.“

Eyþór Stefánsson frá Austurlistanum sagði framboðið ekki leggjast gegn ákveðnum orkugjöfum heldur taka þyrfti afstöðu til hvers kostar hverju sinni og tryggja þeir fari í viðeigandi ferli. Mikilvægt sé að örugg raforka sé til staðar til að efla atvinnulíf og búsetu.

Hann sagði það sína persónulega skoðun að betra væri ef aðrir en einkaaðilar stæðu að baki virkjunaráformunum og beðið yrði með vindorkuvinnslu þar til löggjöf um hana lægi fyrir.

Greining á vindorkusvæðum

Að undanförnu hefur verkfræðistofan Efla unnið að athugun vindorkukosta í Múlaþingi fyrir sveitarfélagið. Sú skýrsla er ekki enn fullmótuð en drög að henni hafa verið á borði nefnda sveitarfélagsins nýverið.

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknarflokks, sagðist ánægð með að ekki væru margir álitlegir staðir til vindorkuvinnslu í Múlaþingi þar sem hún væri ekki sérstaklega hrifin af henni, nema þá á hafi úti. Gott væri hins vegar að hafa forgangsröðum í staðarvali klárt ef aðilar sækist eftir að virka vindinn í sveitarfélaginu og geta þá „staðið í fæturna um hvaða svæði koma til greina eða ekki.“

Bæði Jónína og Ívar Karl Hafliðason, frá Sjálfstæðisflokki, sögðu málefni Geitdalsvirkjunar í því ferli sem það ætti að vera. Endanleg ákvörðun sveitarfélagsins yrði ekki tekin fyrr en niðurstaða þeirrar vinnu lægi fyrir. Ívar Karl sagði rammaáætlun um nýtingu orkukosta skipta máli fyrir forgangsröðun þeirra en hún hefði því miður verið í gíslingu hjá ríkinu. Vonandi yrði leyst úr því. Hann bætti við að ekki væri hægt að horfa framhjá orkuskiptum án þess að líta til þess að tryggja rafmagn en ganga yrði hægt á náttúruna.

Séð heim að Geitdal.Heyra má nákvæmari svör framboðanna, sem og svör þeirra við öðrum spurningum, í spilaranum hér að neðan.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.