Myglusveppamál rædd í sérstakri samráðsnefnd um ógn við heilsu manna

haraldur_briem.jpg
Málefni íbúa í húsum á Egilsstöðum og Reyðarfirði, þar sem greinst hefur myglusveppur, hefur verið rætt í sérstakri samráðsnefnd sem hefur yfirumsjón með nauðsynlegum aðgerðum til að meta og uppræta umhverfisþætti sem ógnað geta heilsu manna.

Þetta kom fram í máli Haraldar Briem, sóttvarnarlæknis á borgarafundi um málið á Egilsstöðum í gærkvöldi en hann er jafnframt formaður nefndarinnar. Nefndin er skipuð af velferðarráðherra eftir ákvæði í sóttvarnalögum. Auk Haraldar sitja í nefndinni tveir fulltrúar frá Matvælastofnun, einn frá Geislavörnum ríkisins og tveir frá Umhverfisstofnun. Annar þeirra skal vera sérfróður um eiturefni.

Samkvæmt sóttvarnalögum hefur nefndin aðgang að nauðsynlegum gögnum og öllum stöðum sem hún telur nauðsynlegt að skoða og getur fengið aðstoð lögreglu ef til þarf. „Ég hef tekið málið upp í þessari nefnd,“ sagði Haraldur í gærkvöldi.

Haraldur fór yfir hlutverk sóttvarnalæknis sem í raun er ætlað að bregðast við heilbrigðisógnum sem steðja brátt að fólki. Umdæminu er síðan skipt upp í nokkur sóttvarnaumdæmi með yfirlækni í hverju.

Haraldur sagði verkefni sóttvarnalækna mismunandi. Meðal annars væru menn nú að fást við aukin áhrif brennisteinsmengunar í lofti en í ljós væri að koma að jarðhitavirkjanir væru „ekki jafn heilsusamlegar og talið hefði verið.“

Haraldur sagði það helst gró myglusveppanna sem væru skaðleg heilsu manna. Þeir framleiddu líka eiturefni en ekki væri líklegt að þau væru í nægu magni til að ógna heilsu. „Það fer ekki á milli mála að þetta er heilsufarsvandamál,“ sagði hann 

Ýmislegt væri þó hægt að gera til að stemma stigu við áhrifum sveppanna, sérstaklega þar sem hægt væri að komast að þeim og þrífa í burtu. „Ef sveppirnir eru fjarlægðir þá lagast vandamálið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.