Mörg hótel og gististaðir á Austurlandi loka í haust

Vegna COVID veirunnar liggur ljóst fyrir að mörg hótel og gististaðir á Austurlandi munu loka í haust. Raunar munu Hótel Hallormsstaður loka þegar eftir næstu helgi en Valaskjálf þann 1. september. Aðrir ætla að bíða aðeins og sjá til fram að mánaðarmótum september/október. Ljóst er að tugir ef ekki hundruð starfsmanna þessara gististaða missa vinnuna.

Þráinn Lárusson eigandi Hótel Hallormsstaðar og Valaskjálfar segir í samtali við Austurfrétt að það sé ekkert annað í boði en að skella í lás. Bókanir hafi hrunið að undanförnu. Þráinn rekur einnig þrjá veitingastaði á Egilsstöðum: Glóð, Skálinn Diner og Salt. Hann Glóð verði lokað einhvern tíman í september og starfsfólki jafnframt fækkað á hinum tveimur. Alls vinna nú 70 til 80 manns á þeim stöðum sem Þráinn rekur og hann reiknar með að þeim fækki verulega. Á sama tíma í fyrra var Þráinn með 130 til 140 starfsmenn.

„Það er skelfilegt að þurfa að grípa til þessara ráðstafana enda er þetta allt frábært og gott starfsfólk,“ segir Þráinn. „En bókanir okkar hafa einfaldlega hrunið eftir að botninn datt úr komu erlendra ferðamanna fyrr í sumar. Íslendingar eru ekki að koma hingað þar sem svæðið er tiltölulega afskekkt á landsvísu.

Þráinn nefnir einnig að hótel hans hafi boðið upp á árshátíð og veislur að hausti en búið sé að afbóka allt slíkt. Um hafi verið að ræða allt að 400 manna árshátíðir.

„Ég tel það ekki forsvaranlegt að bíða og sjá til hvort ástandið batnar,“ segir Þráinn. „Enda hafa sóttvarnaryfirvöld sagt að núverandi ástand muni sennilega vara mánuðum saman.“

Ætlum að sjá til

Kristín Hlíðberg hótelstjóri á Hótel 1001 Nótt segir að þau reikni með að loka í haust en ekki sé endanlega búið að taka ákvörðun um dagsetningu. „Við ætlum að bíða aðeins og sjá hvernig málin þróast en ég er ekki bjartsýn á framhaldið,“ segir Kristín. „Eins og staðan er núna er ekkert bókað hjá okkur eftir 11. október og margir hafa afbókað hjá okkur fram að þeim tíma.“

Fram kemur í máli Kristínar að staðan nú séu mikil viðbrigði frá því sem verið hefur á sama tíma undanfarin tvö ár. „Við höfum yfirleitt verið með fullbókað hótel yfir sumartímann og langt fram á haust en núna er staðan ekki svipur hjá sjón.“

Fyrir utan hótelreksturinn hefur hótelið boðið upp á veisluþjónustu eins og villibráðarkvöld og veislur fyrir fyrirtæki. Þetta mun allt leggjast af í ár. „Núverandi sóttvarnareglur gera okkur eiginlega ókleyft að vera með þessar veislur það sem eftir lifir árs,“ segir Kristín.

Hótel 1001 Nótt er eitt af 100 hótelum landsins sem hefur leyfi til að vera með fólk í sóttkví. Kristín segir að einn sé bókaður í sóttkví hjá þeim núna og hugsanlega muni fleiri koma í þeim tilgangi í haust.

Tökum ákvörðun í september

Gunnlaugur Jónasson sem rekur Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstaðir, ásamt konu sinni Huldu Elisabeth Daníelsdóttur, segir að þau hjónin ætli að sjá til fram í september með ákvörðun um hvort þau muni að loka hótelinu.

„Hjá okkur hefur mjög lítið verið bókað í september og október og staðan hvað það varðar er verulega slæm,“ segir Gunnlaugur. „Ef staðan svo versnar munum við loka fyrr en seinna.“

Gunnlaugur nefnir eins og hinir hótelstjórarnir að mannahald á gistiheimilinu hafi verið mun minna en í fyrra. Þannig voru starfsmenn í fyrrasumar yfir 40 talsins en í sumar hafi á bilinu 20 til 25 manns verið í vinnu hjá þeim.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.