Mögulegur skaðvaldur í laxeldi

IPN-veira hefur greinst í laxi úr sjókví Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði. Þetta er í fyrsta sinn sem veiran greinist í laxi á Íslandi en hún getur valdið sjúkdómnum brisdrepi í fiskum. Veiran fannst við sýnatöku sem er hluti af reglubundnu innra eftirlit hjá fyrirtækinu.

Í fréttatilkynningu frá MAST segir að þó svo veiran hafi greinst þá hafi sjúkdómurinn brisdrep (e. Infectious Pancreatic Necrosis - IPN) ekki greinst í í laxi úr kvíunum eða annarsstaðar á Íslandi. Sjúkdómurinn getur valdið talsverðu tjóni í eldi.

„Veiran getur verið skaðleg í ferskvatnsstöðvum en hún hefur ekki greinst þar. Hún er mjög algeng í vatna- og sjávardýrum um allan heim og því er líklegast að veiran hafi borist í fiskinn hjá okkur úr umhverfinu“ segir Jens Garðar Helgason framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis.

Hann segir að þetta hafi ekki áhrif á daglega starfsemi þeirra og vöktun eigi sér stað í samstarfi við MAST.

„Fiskurinn dafnar og fóðrast vel og það eru engin merki um að alvarleg hætta sé á ferðum. Rétt er að árétta að veiran er algjörlega skaðlaus mönnum og berst ekki með fiskafurðum,“ segir hann.

Hann bætir við að tveir dýralæknar á vegum Laxa fiskeldis vinni náið með starfsfólki MAST við nánari vöktun og eftirfylgni rannsókna.

Í tilkynningunni frá MAST kemur fram að laxinn sem veiran greindist í sé heilbrigður og ástand laxa í kvíum sé almennt gott. Samt sem áður ítrekar MAST mikilvægi vöktunar og smitvarna til að viðhalda góðri sjúkdómastöðu hérlendis og fyrirbyggja að sjúkdómurinn brisdrep komi upp í eldi, einkum í klak- og seiðastöðvum.

Matvælastofnun hefur í varúðarskyni sett dreifingarbann á starfsstöð fyrirtækisins að Bjargi í Reyðarfirði sem mun gilda þar til slátrað hefur verið úr sjókvíunum.

Í kjölfar þessarar greiningar er staða Íslands nú sambærileg stöðu Ástralíu og Nýja-Sjálands. Þar hefur veiran einungis verið greind í fiski í sjó en aldrei í ferskvatni. Bæði þessi lönd eru alþjóðlega skilgreind sem laus við brisdrep, eins og Ísland.

 

Fiskeldi Laxa í Reyðarfirði.  Myndin er aðsend 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.