Minjagildið ekki tryggt

Útlit er fyrir að 20-25 tjón í óveðrunum milli jóla og nýárs falli undir bótaskyldu Viðlagatryggingar Íslands. Fyrst og fremst er um að ræða tjón í Fjarðabyggð.


Fulltrúar Viðlagatryggingar komu austur í síðustu viku og stóðu fyrir fundum í Fjarðabyggð og á Breiðdalsvík til að fara yfir málin. Í tilkynningu frá stofnunni segir að staðan hafi lítillega verið könnuð annars staðar en ekki sé útlit fyrir bótaskylt tjón annars staðar.

Í Neskaupstað varð tjón í vatnsveðri 28. desember. Lækir flæddu í hlíðunum fyrir ofan og innan við bæinn flæddu margir yfir bakka sína. Það varð meðal annars til þess að fráveitukerfi bæjarins yfirfylltist og á því urðu minniháttar skemmdir.

Vatnsveitukerfið fór í sundur í lækjarfarvegi, rof var í vegi og fyllingar grófust frá raf- og símalögnum. Tjón varð á 16 íbúðum í dvalarheimili aldraðra þegar vatn flæddi þar inn og skemmdi tréverk. Í tilkynningu Viðlagatryggingar segir að bæjarstarfsmenn hafi lagt á sig mikla vinnu til að koma í veg fyrir að meira tjón yrði.

Á Eskifirði varð tjón af vatnsflóði í storminum 30. desember þar sem fór saman lágur loftþrýstingur og há sjávarstaða. Tjón varð aðallega á fasteignum nærri fjöruborðinu, einkum sjóhúsum sem talin eru hafa töluvert menningargildi. Í tilkynningunni segir að þau séu tryggð sem fasteignir en minjagildið sé ekki viðlagatryggt.

Þá varð tjón á lausafé og smátjón á fráveitu og hafnarmannvirkjum.

Á Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði heyrir tjón á sjóhúsum undir viðlagatryggingu. Tekið er fram að á Stöðvarfirði hafi aðallega orðið foktjón og misjafnt sé hvort vátryggingar séu fyrir hendi fyrir því.

Byrjað er að meta tjónið og gert er ráð fyrir að það verði búið og matsskýrslur kynntar eigi síðar en um miðjan febrúar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.