Miklar hitasveiflur á Austurlandi

Hæsti og lægsti hiti á láglendi í dag er á sömu veðurstöðinni, Seyðisfirði. Samhliða miklum hlýindum á Austurlandi síðustu daga hafa líka myndast kjöraðstæður fyrir kuldapolla á nóttunni.

Hæsti hiti á landinu það sem af er degi mældist 17,1°C á Seyðisfirði klukkan tíu í morgun. Þar mældist einnig lægsti hitinn það sem af er sólarhringnum, 2,5°C um klukkan eitt í nótt. Mismunurinn er 14,6 gráður.

Fleiri slíkar sveiflur hafa sést á Austurlandi síðustu daga. Athygli vakti á fimmtudag þegar tölur bárust frá Hallormsstað að þar hefði hitinn farið úr því að vera í frostmarki upp í 23,8°C innan sama sólarhring.

Reyndar voru þær tölur ekki alveg réttar. Verið var að laga stöðina og við það var hún núllstillt, en fyrir slysni birtust þær tölur á vef Veðurstofu Íslands. Hins vegar fór hitinn niður í 3,8°C sem þýðir dægursveiflu upp á 20 gráður.

Hlýindin á Austurlandi síðustu daga stafa af suð- og suðvestanáttum. Hlýtt loft sem kemur upp að sunnanverðu landinu hlýnar enn frekar á leið sinni yfir fjöll og ýtir að auki hafgolunni, sem annars kælir svæðið, í burtu. „Þetta skapar kjöraðstæður fyrir góða, heita daga eins og hafa verið hjá ykkur,“ segir Páll Ágúst Þórarinsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

„Það hefur líka verið heiðskýrt að mestu og sólin hitar vel yfir daginn. Á kvöldin og nóttunni er líka bjart og þá sleppur öll geislun út. Vindur hefur líka verið hægur. Við slíkar aðstæður blandast loftið lítið og það kólnar hratt neðst við jörðina.

Oft er hlýrra aðeins ofar, gjarnan er hægt að ganga upp úr slíkum kuldapollum með að fara upp á axlir og ása,“ útskýrir Páll Ágúst.

Við aðstæður sem þessar sjást miklar hitasveiflur. Í nokkrum tilfellum hefur munað 10-15 gráðum innan sama sólarhring og í örfáum tilvikum upp undir 20 stigum, eins og dæmið frá Hallormsstað sannar.

Svalara hefur verið nú eftir hádegið eystra en síðustu daga. Skýjað er yfir og víða hefur loksins rignt. Á móti kemur að skýjahulan kemur í veg fyrir að hitinn falli jafn langt niður í kvöld.

Aftur er svo von á sól eystra næstu daga og að sunnanáttir með þokkalega heitu lofti verði ráðandi að minnsta kosti fram að helgi.

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.