Miklar breytingar á hreindýraveiðum: Dýrin hafa fært sig sunnar á bóginn

hreindyr_vor08.jpg
Heimilt er að veiða allt að 1229 hreindýr á veiðitímabilinu í ár sem er fjölgun upp á rúmlega 200 dýr. Töluverð breyting innan svæða þar sem dýrin virðast hafa fært sig sunnar. Þá verður leyft að veiða dýr í nóvembermánuði.

Þetta kemur fram í auglýsingu sem Umhverfisstofnun sendi frá sér í morgun. Alls er leyfilegt að veiða 1229 dýr, 623 kýr og 606 tarfa. Það er fjölgun um 220 dýr frá því í fyrra. 

Stærsta breytingin er sú að ekki er lengur mestur kvóti á veiðisvæðum 1&2 sem yfirleitt hafa verið flokkuð saman. Stærsta veiðisvæðið í ár er svæði 7, Djúpavogshreppur. Í tilmælum Umhverfisstofnunar er gert ráð fyrir að stærstur hluti kvótans verði veiddur í Hamarsdal.

Í ár er leyft er að veiða 425 dýr á svæði 7 en þau voru aðeins 187 í fyrra. Það er meira en tvöföldun á kvótanum á svæðinu. Á svæði tvö, sem nær yfir svæðið norður frá Jökulsá á Dal austur að Grímsá,  aðeins þriðjungur kvótans eftir. Leyft er að veiða 122 dýr samanborið við 349 í fyrra.

Þá er þeim tilmælum beint til veiðimanna að veiða dýrin fyrst og fremst austan Jökulsár í Fljótsdal. Skýringin er að hreindýrum á Fljótsdalsöræfum hafi fækkað mikið undanfarin ár.

Heimilt er að veiða tarfa frá 15. júlí og standa þær til 15. september eins og verið hefur. Veiðitími kúa lengist um fimm daga í lokin, er frá 1. ágúst til 20. september.

Á veiðisvæði 8, Lónum og Nesjum, er heimilt að veiða 22 kýr af 68 á tímabilinu 1. – 30. nóvember. Á svæði 9, Mýrum og Suðursveit, má veiða allar kýrnar í nóvembermánuði. Nóvemberveiðin er ekki óþekkt hefur ekki verið leyfð undanfarin ár.
 
Svæði  Kvóti 2012  Kvóti 2013 Breyting Hlutfall 
1  111  188  +77  +69,37% 
2  349  122  -277  -65,04% 
3  75  80  +5  +6,67% 
4  31  37  +6  +19,35% 
5  63  68  +5  +7,94% 
6  76  151  +75  +98,68% 
7  187  425  +238  +127,27% 
8  72  113  +41  +56,94% 
9  45  45  -  - 
Alls  1009  1229  +220  +21,80% 
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.