Mikilvægast að ná fyrst til þeirra sem aldrei hafa verið bólusettir

Opið er á heilsugæslustöðvum á Egilsstöðum og Eskifirði í kvöld og á morgun fyrir þá sem aldrei hafa verið bólusettir gegn mislingum. Sóttvarnalæknir biður fólk um að sýna þolinmæði og skilning gagnvart því að forgangsraða þurfi einstaklingum.

„Markmiðið okkar núna er að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Auðvitað getur komið stöku tilfelli en ég held að við munum ekki sjá neinn faraldur,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.

Fyrr í dag var tilkynnt um að bólusett yrði gegn mislingum á heilsugæslustöðvunum á Egilsstöðum og Eskifirði í kvöld og á morgun. Þrjár vikur eru síðan fyrst kom upp mislingasmit á svæðinu en í vikunni hafa fjögur bæst við.

Smitið barst upphaflega með farþega í áætlunarflugi til Egilsstaða þann 15. mars síðastliðinn. Eitt smitanna hefur verið staðfest á Reyðarfirði, þar hafa foreldrar óbólusettra leikskólabarna, sem og starfsmenn, verið beðnir um að halda sig heima til 22. mars. Sambærileg orðsending var send út á Egilsstöðum í gær eftir að grunur vaknaði um að starfsmaður þar hefði veikst í byrjun vikunnar. Það smit hefur nú verið staðfest. Aðeins einstaklingar sem veikjast geta smitað út frá sér.

Nýta auknar birgðir til að ná til fleiri

Til þessa hefur reynt að hafa samband við þá sem voru í mestri hættu eftir að hafa umgengist smitaða einstaklinga, en í morgun var breytt um aðferð og skorað á óbólusetta að koma á stöðvarnar.

„Það er tvennt sem breytir nálgun okkar. Í fyrsta lagi kom upp grunur um tilfelli í gær, í öðru lagi fengum við töluvert magn af bóluefni. Við höfum venjulega birgðir til tveggja mánaða, miðað við meðalnotkun.

Þær voru búnar en við fengum 3000 aukaskammta. Með þá og grun um nýjar sýkingar vildum við útfæra leiðbeiningar til að ná meira ónæmi og vörn í samfélaginu, einkum á Austfjörðum og höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þórólfur.

Þeir sem aðeins hafa fengið eina sprautu ekki í forgangi um helgina

Skorað hefur verið á fólk fætt eftir 1970, niður í allt að sex mánaða gömul börn, að koma í bólusetningu sé það óbólusett. Fólk fætt fyrir þann tíma ætti að hafa fengið mislinga og er því ekki í forgangi.

Reglan hefur verið að einstaklingar séu bólusettir fyrst við 18 mánaða aldur, síðan aftur 12 ára. Að sögn Þórólfs á fyrri bólusetningin að veita 93% vernd og sú seinni 97%. „Þeir aðeins hafa fengið eina sprautu eru ekki í forgangi, við viljum fyrst ná til þeirra sem ekkert bóluefni hafa fengið.“

Hvernig á að staðfesta bólusetningu?

Á Ísland.is er hægt að fletta upp bólusetningum aftur til ársins 2002. Fyrir þann tíma voru bólusetningar skráðar í sérstök bólusetningaskírteini sem fylgdu hverjum einstaklingi. Allur gangur er á hvort fólk viti um skírteini sín.

„Það er miður ef fólk er ekki með skírteinin sín, í sumum tilfellum hafa foreldrarnir passað upp á þau. Í þessari stöðu er ekki til neitt algilt svar, hver og einn verður að meta líkurnar á að hann hafi verið bólusettur, til dæmis með fjölskyldu sinni. Á gráum svæðum er erfitt að gefa algild svör en fólk getur oft fengið bólusetningu ef nóg er til.“

Um það er ekki fullvíst og þess vegna er forgangsraðað. „Ég bið fólk um að sýna því skilning. Við fáum meira bóluefni í næstu viku, eins hratt og við mögulega getum. Það er eftirspurn eftir því víða í Evrópu þar sem mislingar ganga.“

Þórólfur er bjartsýnn á að vel gangi að koma fyrir mislingasmitið um helgina. „Við erum bjartsýn fyrir helgina. Það er búið að setja upp áætlanir um viðbrögð, þótt þær gangi kannski eftir 100% eftir, þá gera allir sitt besta.“

Hvernig getur mislingabólusetning verið skráð?

Í mörgum tilfellum er einfaldlega skráð í bólusetningarskírteini að bólusett hafi verið við mislingum. Stundum er aðeins skráð heiti lyfs eða sprautu sem gefið er. Eftirfarandi eru heiti yfir bólusetningar gegn mislingum:
MMR vaxpro
Priorix
Virivac

Upplýsingar um bólusetningar á Austurlandi

Föstudagur 8. mars 2019:
Allir einstaklingar eldri en 6 mánaða og fæddir eftir 1970 sem ekki hafa verið bólusettir eru hvattir til að mæta í bólusetningu. Bólusett verður á Egilsstöðum og Eskifirði í dag, föstudaginn 8. mars, frá kl. 15:00 til 20:00.
Þeir sem telja sig hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling eru beðnir að koma í bólusetningu kl. 20:00-21:00 í dag, föstudaginn 8. mars.

Laugardagur 9. mars 2019:
Allir einstaklingar eldri en 6 mánaða og fæddir eftir 1970 sem ekki hafa verið bólusettir eru hvattir til að mæta í bólusetningu. Bólusett verður á Egilsstöðum og Eskifirði laugardaginn 9. mars, frá kl. 10:00 til 15:00.
Þeir sem telja sig hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling eru beðnir að koma í bólusetningu kl. 15:00-16:00 laugardaginn 9. mars.

- Egilsstaðir: Lagarás 22, skrifstofa framkvæmdastjórnar HSA
- Eskifjörður: heilsugæslustöðin

EKKI ÞARF AÐ PANTA TÍMA, NÓG ER AÐ KOMA Á TÍMUNUM SEM TILGREINDIR ERU HÉR AÐ OFAN

Athugið:
- Einstaklingar sem fæddir eru fyrir 1970 hafa langflestir fengið mislinga og eru því ekki í forgangi í bólusetningu.
- Einstaklingar sem eru með sögu um eina bólusetningu eru ekki í forgangi. Hægt verður að bjóða þeim bólusetningu síðar.

Upplýsingar á ensku frá HSA
Upplýsingar á pólsku frá HSA
Upplýsingar á íslensku, ensku og pólsku frá embætti landlæknis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.