Mikill áhugi á REKO hugmyndafræðinni á Austurlandi

Bændum, heimavinnsluaðilum og smáframleiðendum er boðið til fundar um REKO hugmyndafræðina á Austurlandi á Egilsstöðum annað kvöld. Hugmyndirnar ganga út á að koma á fót milliliðalausri sölu milli framleiðenda og neytenda.

„Það hafa margir sýnt áhuga og við höfum verið að tala við fólk,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir, verkefnastjóri REKO hjá Matarauði Íslands og bóndi í Gautavík í Berufirði.

Hún hefur unnið að því að koma REKO af stað á Íslandi en þegar eru komnir á fót hópar í Reykjavík, Vesturlandi, sunnanverðum Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi.

Samband neytanda og framleiðanda

REKO gengur út á að nýta nútímatækni, Facebook, sem dreifileið fyrir vörur bænda, heimvinnsluaðila og smáframleiðenda til neytenda.

Fyrirmyndin kemur frá Finnlandi en REKO er skammstöfun og þýðir „vistvænir og heiðarlegir viðskiptahættir“. Þar hafa bændur, heimavinnsluaðilar og smáframleiðendur náð að auka veltuna umtalsvert með þátttöku í REKO og ætti það sama að geta orðið hér á landi.

Tilgangurinn er að efla nærsamfélagsneyslu og færa framleiðendur og kaupendur nær hver öðrum; gera matarhandverki og heimavinnslu hærra undir höfði og færa smáframleiðendur ofar í virðiskeðjuna.

„Hugsunin er að koma á fót dreifileið sem sparar bæði neytendum og framleiðendum tíma. Þetta gefur neytendum tækifæri til að kynnast framleiðanda og framleiðandinn getur fengið viðbrögð við vöru sinni.“

Aðeins afhent það sem pantað er

Fyrirkomulagið er þannig að stjórnandi hvers REKO hóps stofnar viðburð inn í hópnum fyrir hverja afhendingu. Framleiðendur setja inn færslur inn í þá viðburði sem þeir vilja taka þátt í þar sem þeir tilgreina hvað þeir hafi í boði og hvað það kosti. Undir hverja færslu setja áhugasamir kaupendur inn athugasemd þar sem þeir tilgreina hvað þeir vilji kaupa og hve mikið. Þeir geta einnig gert það í einkaskilaboðum til framleiðenda.

Kaupendur greiða framleiðendunum svo rafrænt fyrir það sem þeir ætla að kaupa; fyrir afhendingardaginn. Á afhendingardeginum afhenda framleiðendur kaupendum síðan vörurnar milliliðalaust.

Neytandinn er búinn að borga vöruna fyrirfram og aðeins er afhent það magn sem pantað var, ekki er hægt að breyta pöntun eða kaupa af öðrum á staðnum.

Þegar hefur verið stofnaður REKO Austurland hópur og stjórnar Guðný Harðardóttir, bóndi á Gilsárstekk í Breiðdal, honum. Þá var stofnaður hópur í Hornafirði í haust sem Anna Sigurbjörg Sævarsdóttir, bóndi á Miðskeri í Nesjum, leiðir.

Fundurinn á morgun verður í fundarsal Austurbrúar á Egilsstöðum kl. 20:15. Þar verður farið yfir hugmyndafræðina, þá reynslu sem komin er hjá öðrum hópum og þátttakendum gefið færi á að kynnast, spjalla saman, spyrja spurninga og ákveða í sameiningu hvernig viljinn er að gera vinna REKO á Austurlandi.

Kristján Þór Júlíusson við fyrstu REKO afhendinguna í Reykjavík. Mynd: Matarauður Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.