Mikil spurn eftir flugi til Austurlands

Framkvæmdastjóri þýska flugfélagsins Condors, sem í morgun tilkynnti um vikulegt flug til Egilsstaða næsta sumar, segir félagið hafa fundið fyrir miklum áhuga á flugi til annarra áfangastaða en Keflavíkur hérlendis. Stjórnendur Isavia segja tíðindin árangur þrotlausrar vinnu.

„Velkomin til lands elds og ísa. Vinsælasta flugfélag Þjóðverja á leið í frí flýgur í fyrsta sinn með farþega sína til Íslands,“ eru inngangsorð tilkynningar Condors.

Flogið verður vikulega, annars vegar til Akureyrar, hins vegar Egilsstaða, frá maí fram í október á næsta ári. „Ísland er einn vinsælasti áfangastaður okkar í norðri. Við hlökkum til að bjóða viðskiptavinum okkar að kynnast þessum fjölbreytta og fallega áfangastað. Með tengingu til Akureyrar og Egilsstaða erum við að svara eftirspurn frá fjölda ferðaskrifstofa sem bjóða upp á ferðir til Norður- og Austurlands,“ segir Ralf Techentrup, framkvæmdastjóri Condor.

„Það er afar ánægjulegt að flugfélagið Condor hafi ákveðið að velja Akureyri og Egilsstaði sem fyrstu áfangastaði sína á Íslandi,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. „Þessi ákvörðun Condor er afrakstur af öflugu kynningarstarfi Austurbrúar, Isavia Innanlandsflugvalla, Íslandsstofu og Markaðsstofu Norðurlands þar sem áhersla hefur verið lögð á þróun fleiri gátta inn í Ísland. Þá hefur framlag íslenskra stjórnvalda til verkefnisins skipt máli. Öll þessi vinna er farin að bera ávöxt og tökum við fagnandi á móti Condor.“

„Flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum eru frábærir og tilbúnir að taka á móti Condor næsta sumar,“ er haft eftir Sigríði Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóra ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu. „Þessi nýju flug veita gestum okkar tæknifæri á að kanna Ísland enn betur með að lenda beint á Norður- og Austurlandi. Í báðum fjórðungum er ótrúlegt landslag og frábærir innviðir í ferðaþjónustunni, svo sem gott úrval hótela og fjölbreyttir möguleikar til útivistar.“

Mæra náttúru Austurlands

Flugvélarnar hefja sig á loft frá aðalflugvellinum í Frankfurt seinni part dags og lenda á Egilsstöðum seint að kvöldi. Þær staldra þar við í stutta stund áður en þær fara aftur af landi brott fyrir miðnætti.

Í tilkynningu Condor er farið yfir nokkrar af helstu perlunum í kringum Egilsstaði. Þar eru talin upp Stuðlagil, Hafrahvammagljúfur sem og einn hæsti foss landsins, Hengifoss. Bent er á að Austurland teygi sig allt að Eystrahorni og á þeirri leið sé fögur strandlengja með litlum þorpum og þröngum fjörðum þar sem tilvalið sé að kynnast hefðbundnu lífi Íslendinga. Á svæðinu sé ennfremur fjölbreytt dýralíf, til dæmis hreindýr og lundar auk þess sem Hallormsstaðaskógur sé stærsti skógur landsins.

Hægt verður að kaupa miða í flugið í gegnum bæði þýskar ferðaskrifstofur sem og vef Condor. Það er þriðja stærsta flugfélag Þýskalands með áætlunarferðir til um 90 áfangastaða víðs vegar um heim.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.