Metmánuður hjá Gullveri

Togarinn Gullver á Seyðisfirði hefur aldrei landað meiri afla á einum mánuði heldur en í nýafstöðnum októbermánuði. Veiðar hafa gengið vel austur af landinu.

„Það hittist vel á með landanir í mánuðininum og það gekk mjög vel. Það hjálpar líka mikið að við erum með nægan kvóta,“ segir Rúnar Laxdal Gunnarsson, annar skipstjóra Gullvers.

Samkvæmt samantekt Aflafrétta landaði Gullver 860 tonnum í sjö veiðiferðum í október. Sú síðasta var gjöfulust en þá kom togarinn að landi með 131,1 tonn eftir þrjá daga á veiðum. Í frétt Aflafrétta segir að togarinn hafi aldrei veitt jafn mikið í einum mánuði.

Í samtali við Austurfrétt sagðist Rúnar þó setja þann fyrirvara við tölurnar og samanburð við fyrri ár að fyrir tveimur árum hafi verið breytt um reiknireglu hjá ríkinu. Nú sé allt reiknað í óslægðum afla sem þýðir að allt að 20% bætist við.

Þorskur var uppistaðan í afla Gullvers í október en einnig veiddist nokkuð af ufsa, karfa og ýsu. Aflinn fékkst mestur á hinum hefðbundnu veiðimiðum skipsins út af Suðausturlandi, á Berufjarðarál, Hvalbakshalla og Litla-Dýpi.

„Það hefur verði óvenju mikill fiskur úti fyrir Austfjörðum. Það hafa töluvert margir bátar verið á miðunum, veðrið fyrir vestan spilar þar líka inn í,“ segir Rúnar.

Hann var nýkominn í land með Gullveri. Skipið kom til Seyðisfjarðar klukkan níu í morgun með 90 tonn af afla eftir að hafa verið að veiðum frá á mánudagskvöld. Það staldrar ekki lengi við og lætur aftur úr höfn nú klukkan fjögur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.