Metfjöldi fólks af skemmtiferðaskipum heimsótti Minjasafn Austurlands í fyrra

Vaxandi umferð skemmtiferðaskipa til Austurlands á síðasta ári hafði jákvæð áhrif víða. Þar á meðal á Minjasafn Austurlands en metfjöldi skipafarþega sótti safnið heim.

Alls rúmlega 3700 gestir heimsóttu Minjasafnið á liðnu ári sem var mikil fjölgun frá fyrra ári en það skrifast að einhverju leyti á samkomutakmarkanir það ár. En gestir af skemmtiferðaskipum höfðu jafnframt töluverð áhrif því fleiri slíkir sóttu safnið en áður hefur gerst eða rúmlega 700 manns.

Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri, segir eðlilega mjög ánægð með þá stöðu enda sé það meiri fjöldi en kíkti við áður en Covid-faraldurinn fór að gera usla.

„Afar gleðileg þróun og við sjáum reyndar fyrir okkur að fjöldinn muni að öllum líkindum aukast enn frekar á þessu ári með tilliti til metfjölda skipa sem hingað koma í sumar. Það er reyndar ekki byrjað að ráði. Einn hópur ætlaði að koma til okkar fyrir skömmu en leiðinlegt veður setti strik í það.“

Aukinn fjöldi er ekki hrein tilviljun segir Elsa Guðný.

„Við höfum verið að reyna að vekja athygli á okkur sem áfangastað fyrir þessa hópa. Okkar safn hefur hingað til ekki verið að fá marga af skemmtiferðaskipum gegnum tíðina. Það hefur svolítið verið keyrt framhjá okkur en það breyttist í fyrra og vonandi verður framhald þar á. Ég geri ráð fyrir að mun fleiri skip þurfi að dreifa hópunum sínum meira og kannski er það hluti af þessu en við fögnum þessu og allt mjög bjart framundan.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.