Mesta starfsánægjan í Verkmenntaskóla Austurlands

Mesta starfsánægjan í ríkisstofnunum á Austurlandi er í Verkmenntaskóla ef marka má árlega könnun SFR á stofnun ársins. Menntaskólinn á Egilsstöðum er meðal þeirra stofnana þar sem starfsánægja hefur aukist mest.

Mælikvarði SFR er settur saman úr flokkunum stjórnun, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika, sjálfstæði, ímynd, ánægja og stolt og jafnrétti. Mest er hægt að fá einkunnina fimm í hverjum flokki. Heilareinkunn er svo reiknuð út frá meðaltalinu.

Þannig fær Verkmenntaskólinn einkunnina 4,291 en starfsánægja í skólanum hefur lengi mælst mjög há. Skólinn er í níunda sæti stofnana á landsvísu með 20-49 starfsmenn.

Tveimur sætum neðar er Menntaskólinn á Egilsstöðum með einkunnina 4,242 en skor skólans hefur aukist hratt á undanförnum árum. Launakjör draga skorið niður hjá báðum skólunum en á báðum stöðum er ánægja með stjórnun og stoltið af skólunum er mikið.

Skógrækt ríkisins, sem er með höfuðstöðvar sínar á Egilsstöðum , fær meðaleinkunnina 4,264. Það skilar stofnuninni í sjöunda sæti lista stofnana með 50 starfsmenn eða fleiri. Það er stærsti flokkurinn með 86 stofnanir. Í útskýringum með könnuninni er bent á að starfánægjan sé almennt meiri hjá minni stofnunum en stærri.

Aftur draga launin einkunnina niður en Skógræktin fær á móti góðar einkunnir fyrir starfsanda, sveigjanleika og vinnuskilyrði.

Einkunn sýslumannsins á Austurlandi er 4,01 og hefur heldur mjakast upp á við. Almennt eru sýslumenn og lögregluembætti í neðri hluta töflunnar. Ánægja með laun er í lægra lagi á landsvísu. Á móti virðast starfsmenn þar ánægðir með sjálfstæði í starfi auk þess sem þeir eru stoltir af stofnuninni.

Minnsta ánægjan hjá austfirsku stofnununum er hjá lögreglunni sem fær einkunnina 3,85, sem er þó heldur skref í rétta átt miðað við eldri kannanir. Vart er hægt að segja að starfsmenn þar séu áberandi ánægðir eða óánægðir með ákveðna þætti, launakjörin fá lægstu einkunnina en mest er ánægjan með jafnrétti og sveigjanleika.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar