Meirihlutinn ekki ákveðinn fyrirfram

Oddvitar nýs meirihluta Fjarðalista og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Fjarðabyggðar hafna ávirðingum um að línur hafi verið lagðar um samstarfið áður en kosið var í nýja sveitarstjórn. Samstarfið á síðasta kjörtímabili hafi hins vegar gengið vel og nokkur samhljómur verið í málefnaskrám.

„Þessi meirihluti var ekki ákveðinn fyrirfram, það er alveg hægt að kvitta upp á það. Við vorum hins vegar hrein og bein með það í kosningabaráttunni að við litum til þess að vinna með flokkum sem hafa félagshyggju í fyrirrúmi. Við fundum að okkar kjósendur kölluðu eftir því en það var ekkert ákveðið fyrirfram,“ segir Stefán Þór Eysteinsson oddviti Fjarðalistans.

Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks sem er í minnihluta, skrifaði í síðustu viku grein hér á Austurfrétt þar sem hann sagði í samtölum við oddvita nýja meirihlutans eftir kosningarnar ekki hafa fundið neitt sem útilokaði samstarf við hans flokk. Að hans mati væri augljóst að hin framboðin hefðu verið búin að ákveða að vinna sama. Slíkt væri í lagi en yrði að vera uppi á borðum fyrir kosningar.

„Þrátt fyrir greinaskrif um kosningabandalög og fleira verð ég að hryggja samsæriskenningasmiði með að þær standast ekki. Hins vegar leynist engum í sveitarstjórnarmálum að framboð hafa oft svipuð stefnumál.

Í okkar tilfelli var ákveðið að ræða saman í ljósi þess að meirihlutinn hélt og mikill samhljómur var í stefnuskrám framboðanna með jöfnuð og samvinnu að leiðarljósi. Því var ákveðið að byrja á þessu og taka þá samtalið annað ef þetta leiddi ekki áfram,“ segir Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks.

Enginn útilokaður

Ragnar, sem fleiri Sjálfstæðismenn, hafa sakað oddvitana um að hundsa þá staðreynd að flokkurinn hafi orðið stærstur með 40% fylgi, sem sé sögulegt afrek.

„Meirihlutinn hélt auðvitað og samstarfið hafði verið gott. Við erum ekkert að útskúfa Sjálfstæðisflokknum og munum vinna með honum. Góðar hugmyndir eru góðar, saman hvaðan þær koma og hér í Fjarðabyggð höfum við getað starfað öll saman,“ segir Stefán.

„Eftir stendur að 54% kjósenda greiða þessum meirihluta sitt atkvæði. Við höfum meirihluta atkvæða á bakvið okkur. Annars hefur það verið einkenni bæjarstjórnar Fjarðabyggðar að ná góðri samvinnu, einkum um stór mál, óháð meirihluta,“ bætir Jón Björn við.

Báðir segja að viðræðurnar um myndun meirihlutans hafi gengið vel. „Það var ljóst strax að samhljómurinn milli framboðanna var töluverður. Að gera samninginn tók tíma, ekki því var erfitt heldur vildum við vanda okkur. Ég held það hafi tekist og því er spenningur í okkar hópi fyrir komandi kjörtímabili,“ segir Stefán.

„Við gáfum okkur góðan tíma þótt við séum að vinna með svipaðan grunn og á nýloknu kjörtímabili. Þar eru fjölskyldur og fleira í fyrirrúmi sem endurspeglar okkar stefnuskrár,“ segir Jón Björn að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.