Meira en helmingur fluga langt á eftir áætlun

Aðeins rúmur þriðjungur fluga Icelandair milli Egilsstaða og Reykjavíkur undanfarna viku hafa verið á áætlun. Mikil vandræði hafa verið með flota félagsins en ein véla þess var aðeins einu sinni á réttum tíma af þrettán skiptum.

Þetta kemur í ljós þegar skoðuð eru gögn af vefnum Flightradar. Fimmtudaginn fyrir viku gekk flugið þokkalega en síðan hefur nánast verið hending ef ekki hefur verið veruleg töf.

Flightradar flokkar stundvísi fluga í fjóra flokka. Í fyrsta lagi að lent sé á réttum tíma eða aðeins fyrr. Næsti flokkur nær yfir um 15-30 mínútna seinkunn, síðan kemur 30-60 mínútna seinkunn og loks meira en klukkustundarseinkunn.

Austurfrétt taldi 38 flugleggi milli Reykjavíkur og Egilsstaða undanfarna viku. Af þeim voru 34% á réttum tíma og 8% til viðbótar lítillega á eftir áætlun. Hins vegar voru 58% fluga í síðastnefndu flokkunum. Töfin var sjaldnast minni en 60 mínútur, oft mun meiri, á stundum milli tveir og þrír tímar.

Flugvélarnar fara frá Reykjavík til Egilsstaða og aftur til baka. Þess vegna hefur seinkunn á einum legg keðjuverkandi áhrif, bæði á næsta legg sem önnur flug. Ekki var reiknuð út seinkunn á aðra áfangastaði sem flugvélar Icelandair innanlands sinna, það er Akureyri, Ísafjörð og til Grænlands.

Miklar tafir á stóru vélunum

Icelandair er með fimm flugvélar frá Bombardier í flugið. Þrjár þeirra eru með rúmlega 30 sætum en tvær með meira en 70. Þegar tölurnar eru skoðaðar nánar sjást að mikil vandræði hafa verið með stóru vélarnar tvær, sem sinna mest flugi til Akureyrar og Egilsstaða.

Þannig náði FT-FXI aðeins einu sinni í þrettán leggjum að vera á réttum tíma. Í öll hin skiptin var hún að minnsta kosti klukkustund á eftir áætlun. Í morgun átti hún að fljúga til Akureyrar en var snúið við. Það hefur sett flugið úr skorðum í dag. Hún var komin aftur í gang eftir hádegið og lenti á Egilsstöðum samkvæmt áætlun klukkan 15:10. Ferð hennar í dag var farin eftir að Austurfrétt reiknaði gögnin frá Flightradar.

Hin stóra vélin, TF-FXA, á líka að baki þrettán flugleggi, á sjö þeirra var seinkunin klukkutími eða meira. Vandræðin byrjuðu þegar henni var snúið við í morgunfluginu til Egilsstaða síðasta föstudag. Hún hefur ekki verið á lofti síðan í hádeginu í gær.

Vantar eina í hópinn

TF-FXG, sem annars sinnir mest flugi til Ísafjarðar, bjargar hlutfallinu. Átta flug hennar til og frá Egilsstöðum voru á áætlun. Flugi hennar til Grænlands upp úr hádegi í dag seinkaði og því er orðið ljóst að kvöldflugið til og frá Ísafirði verður að minnsta kosti 2,5 tímum á eftir áætlun.

TF-FXK, sem mest flýgur til Grænlands, fór eina ferð fram og til baka. Hún var um klukkustund á eftir áætlun. Flugi hennar til Grænlands í gærmorgunn var aflýst og hefur hún ekki verið á ferðinni í dag. Þriðja vélin, TF-FXH, hefur verið í viðhaldi á Möltu síðustu þrjár vikur.

Hún var nýfarin úr landi þegar Austurfrétt tók síðast saman gögn af Flightradar þann 9. júní. Vikuna á undan höfðu verið miklar tafir þegar önnur stóra vélin kom seinna inn í leiðakerfið en ætlað var. Af 44 flugleggjum þá daga lentu hins vegar 64% á réttum tíma, í 18% tilfella var seinkunni rúmur hálftími og einnig í 18% tilvika klukkutími eða meira. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.