Með tvo tveggja metra menn til verndar á fundum með starfsmannaleigum

Framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags segist sleginn en ekki hissa á frásögnum í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í gærkvöldi um meðferð á erlendu starfsfólki sem þrælað er út nánast kauplaust. Hann segir slíka meðferð ekki geta viðgengist nema með þegjandi samþykki almennings.

„Flestir sem eru virkir í forustu verkalýðsfélaga hafa vitað af þessu ástandi. Í þættinum var fátt sem kom á óvart en það var hrollvekjandi að sjá þessu safnað öllu saman á einum klukkutíma,“ segir Sverrir Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs.

Talsverð viðbrögð hafa verið við því sem fram kom í þættinum eftir sýningu hans, bæði frá verkalýðsforustu, talsmönnum atvinnurekenda en ekki síst almenningi.

„Að vissu leyti er þetta skrýtin reiði því svona getur ekki viðgengist nema með þegjandi sátt. Ég fletti til baka í blöðum og fréttasöfnum eftir þáttinn og þetta er ekki eitthvað sem þjóðin var að fá að vita í fyrsta sinn.

Við getum gert kröfur til stjórnvalda um harðari aðgerðir en við verðum líka að gera kröfur til okkar sjálfra. Svona getur ekki viðgengist nema við skiptum okkur ekki af. Meðalmanneskjan þarf að spyrja sjálfa sig hvort hún kaupi kaffibollann samt sem áður ef hún veit að sá sem þjónar fái borgað langt undir mannsæmandi kjörum. Ef svarið er já erum við í vanda.“

Sjálfboðaliðar á Austurlandi í sömu aðstæðum og sáust í þættinum

Í þættinum í gærkvöldi var bæði fjallað um ferðaþjónustufyrirtæki sem nýta sér starfsemi sjálfboðaliða og starfsmannaleigur sem helst borga starfsmönnum undir lágmarkskjörum og jafnvel hirða gjöld af starfsmönnum án heimilda.

AFL er meðal þeirra verkalýðsfélaga sem barist hafa gegn störfum sjálfboðaliða í samkeppnisrekstri. „Síðasti hópur sjálfboðaliða sem við höfðum afskipti af bjó í skítagámum, vann kauplaust við að vísa túristum og ótryggt.

Það eru sömu aðstæður og fólk hneykslast á eftir þáttinn í gær. Þær hafa viðgengist á Austurlandi og það virðist sem flestum sé slétt sama. Við höfum lagt til atlögu við fyrirtæki sem nota sjálfboðaliða og það hafa verið gerð hróp að okkar fólki því fólki finnst ómerkilegt að við séum að skipta okkur af.“

Rifjaði upp Kárahnjúkatímann

Í þættinum var einnig rifjað upp hvernig tekist var á við starfsmannaleigur við byggingu Kárahnjúkavirkjunar en segja má að það hafi verið í fyrsta skipti sem meðferð þeirra á starfsmönnum komust í hámæli.

„Þetta rifjaði ótal margt upp. Þetta eru sömu viðfangsefnin aftur og aftur. Ill meðferð á fólki og úrræðaleysi eða hreinlega afskiptaleysi stjórnvalda. Það er grátlegt að sjá hvernig stjórnvöld og við sem þjóð leyfum okkur að fara með fólk.“

Nauðsynlegt að koma starfsfólkinu í skjól

AFL stóð í eldlínunni á Kárahnjúkatímanum og Sverrir þar með sem framkvæmdastjóri félagsins frá árinu 2005. Hann bendir á að margt hafi áunnist, til dæmis hafi réttarstaða starfsmannaleiga verið skýrð og keðjuábyrgð bundin í lög en þó komi upp sömu vandamálin.

„Við hjá AFLi notuðum sterk vinnubrögð. Það sem tryggði okkur árangur í stærstu málunum var að sækja mannskapinn á vinnustaðinn og honum komið fyrir á hótelum meðan málið var unnið. Það var dýrt en færði okkur sigurinn.

Fyrstu viðbrögð glæpamannanna eru alltaf að koma þeim sem níðst hefur verið á eins hratt og hægt er úr landi. Þannig tapast málin. Starfsfólkið þarf að finna stuðning og bakland frá verkalýðsfélaginu á þann hátt að þeim sé veitt húsaskjól og framfærsla. Fólkið þarf að lifa og borða, ef það er ekki tryggt þá hverfur það.“

Í þættinum í gær var talað við pakistanskan hótelstarfsmann sem var boðið eins mánaðarfrí í heimalandi sínu og honum sagt upp meðan hann var í því.

Í handalögmálum við verkstjóra

Sverrir rifjar upp að einum hópnum á Kárahnjúkatímanum hafi verið hótað ofbeldi og fjölskyldum þeirra líka. „Það verður að taka fast á hlutunum því það er einskis svifist.

Við þurftum að fara í mál við undirverktaka við Fljótsdalsstöð og þar gekk á með hótunum um ofbeldi, bæði gagnvart starfsmönnunum og mér persónulega. Þar voru verkstjórar sem gengu fram með ruddaskap.

Ég var svo heppinn að einn samstarfsmanna minna var stór og hraustur og túlkurinn sem ég hafði var tveggja metra hár. Á einum fundinum lentum við í handalögmálum við að vísa verkstjóra út og í kjölfarið voru fundir sem ég fór ekki á nema hafa þessa tvo félaga mína með því við lentum ósjaldan í smá hrindingum og stimpingum.

Hótanir viðgangast enn. Eftirlitsfulltrúum verkalýðsfélaga hefur verið hótað nánast lífláti í ferðum sínum að undanförnu og það hefur þurft að kveða til lögreglu.

Tjónið lendir á skattgreiðendum

„Það sem var sorglegast við þáttinn í gær var að núna tíu árum síðar er eins og við höfum ekkert lært. Meðferðin, mannvirðingin og gróðafíknin er sú sama.

Það er ömurlegt að sjá að á bakvið fyrirtækin eru glæpamenn sem aftur og aftur hafa skipt um kennitölur. Þetta er vel þekkt vandamál og maður spyr sig hví Alþingi detti ekki í hug að koma böndum á slíkt. Í flestum tilfellum lendir kostnaðurinn og tjónið á almenningi en glæpamennirnir hirða gróðann.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar