Mælast til þess að fólk sé ekki á ferðinni að óþörfu

Almannavarnir á Austurlandi hvetja fólk til að vera ekki á ferðinni að óþörfu meðan hvassviðrið, sem ríkt hefur í fjórðungnum síðan á laugardagskvöld, gengur niður. Nóttin var þó tiltölulega róleg eftir erfiðan gærdag. Enn er þó reynt að hefta fok.

„Við erum enn að fá tilkynningar til björgunarsveita um fok á munum, svo sem þakplötum, til dæmis á Seyðisfirði, Norðfirði og Reyðarfirði, svo þetta er ekki alveg gengið niður,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn.

Verið er að safna saman tilkynningum um tjón í gær. Einhverjar skemmdir virðast hafa orðið svo að segja um allt Austurland, þó kannski síst á Fljótsdalshéraði og Vopnafirði, að minnsta kosti enn sem komið er.

Nóttin var síðan þokkaleg. „Það voru áhyggjur af áhlaðanda á Borgarfirði eystra, að uppi væru svipaðar aðstæður og í janúar 2021. Þá urðu þar nokkrar skemmdir. Nú virðist ekki hafa orðið neitt stórtjón enda var undirbúningurinn mjög góður,“ segir Kristján.

Einnig barst útkall á Reyðarfirði í nótt vegna foks.

Enn er býsna hvasst víða á Austfjörðum. Búið er að opna frá Egilsstöðum norður um til Vopnafjarðar og Akureyrar en áfram er lokað um Vatnsskarð, Fjarðarheiði, Mjóafjarðarheiði, Fagradal, Öxi og Breiðdalsheiði auk þess sem lokað er frá Fáskrúðsfirði suður í Skaftafell.

„Það verður ekki opnað fyrr en ljóst er að því fylgi ekki vandamál. Okkar tilmæli eru að fólk haldi sig sem mest heima ef hægt er og fylgist með veðurfréttum. Það er viðbúið að þetta ástand vari fram yfir hádegi,“ segir Kristján Ólafur sem segir vert að þakka íbúum fyrir góðan viðbúnað þar sem flestir lausamunir hafi verið heftir og ferðalögum frestað. Það hafi aftur létt á viðbragðsaðilum og komið í veg fyrir frekara tjón og jafnvel slys.

Sveitarfélögin Múlaþing og Fjarðabyggð munu hefja hreinsunar- og viðgerðarstarf um leið og veður leyfir. Talsvert verk bíður sveitarfélaganna við það verk sem og fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem hafa mátt þola tjón vegna óveðursins.

Frá Reyðarfirði í gær. Mynd: Þórður Vilberg Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.