„Maður var auðvitað bullandi stressaður“

„Efst í huga er þakklæti til viðskiptavina minna síðasta áratug og velvild í minn garð,“ segir Ingunn Eir Andrésdóttir, eigandi Snyrtistofu Ingunnar, en tíu ár er síðan hún opnaði og af því tilefni verður boðið til veislu þar í dag.


Ingunn Eir er Eskfirðingur en maður hennar Páll Birgir Jónsson er frá Hornafirði. Þau voru búin að búa saman í Reykjavík í tvö ár áður en kom að tímamótum árið 2007, en þá gekk Ingunn Eir með þeirra fyrsta barn.

„Við vorum farin að leita okkur að húsnæði fyrir sunnan þar sem við ætluðum að vera. Maðurinn minn sótti þó um vinnu hjá Alcoa Fjarðaáli og ætlunin var að vera fyrir austan meðan ég væri í fæðingarorlofi. Það var svo gott að koma heim í rólegheitin með lítið barn þannig að við ákváðum að setjast að hér.

Ég ákvað að opna stofuna og þá skapa mér atvinnu í leiðinni. Maður var auðvitað bullandi stressaður yfir þessu, það er dýrt að koma slíkri stofu á fót, en ég hugsaði bara að ég myndi þá í versta falli selja og gera eitthvað allt annað ef þetta gengi ekki,“ segir Ingunn Eir en síðan eru liðin tíu ár.

Stanslaus afmælisgleði allan daginn
Mikil gleði verður á stofunni í dag með afsláttum og öllu tilheyrandi. „Hingað kemur Kristjana Viðarsdóttir snyrtifræðingur og sérfræðingur í Biotherm snyrtivörunum, en hún kom í fyrsta skipti til mín þegar ég opnaði og hefur komið reglulega síðan.

Við munum gefa fyrstu tíu gestunum gjafir, þá verða kaupaukar og afslættir, sem og happdrætti í lok dags þar sem tíu heppnir viðskiptavinir hljóta vinninga. Auðvitað bjóðum við svo upp á léttar veitingar og notalega stemmningu,“ segir Ingunn en gleðin mun standa frá klukkan 10:00-18:00 á Strandgötu 26.

„Maður er alltaf hálfgerður sálfræðingur þegar fólk er sest í stólinn“
Ingunn segir reksturinn hafa gengið upp og niður eins og gengur. „Stundum er of rólegt en á öðrum tímum of mikið að gera eins og kringum jól og fermingar. Ég hef alltaf verið ein og sakna þess stundum að hitta engan á kaffistofunni. Að sama skapi hitti ég alla flóruna af fólki sem til mín kemur og maður er alltaf hálfgerður sálfræðingur þegar fólk er sest í stólinn.“

Um næstu tíu ár segir Ingunn Eir að erfitt sé að spá. „Ég tek nú bara eitt ár í einu, en kannski ég þyrfti að fara að setja mér einhver langtímamarkmið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar