Lýsa ánægju með úrslit kosninganna

Forsvarsmenn sveitarstjórna Seyðisfjarðarkaupstaðar, Djúpavogshrepps, Borgarfjarðarhrepps lýsa ánægju sinni með niðurstöður sameiningarkosninga í kvöld. Sveitarfélögin þrjú hafa ásamt Fljótsdalshéraði átt í viðræðum um sameingu undanfarið ár og var sameiningin samþykkt í sveitarfélögunum fjórum með afgrerandi hætti í dag.


„Þetta eru virkilega góðar fréttir. Það eru spennandi tímar framundan á Austurlandi og það gleður mig að sjá hversu góð kjörsókn var víða,“ segir Hildur Þórisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði.

Á Seyðisfirði greiddu 87% atkvæði með sameiningunni. „Ég átti von á að sameiningin yrði samþykkt hér en ekki svona afgerandi. Það er jákvætt. Það er sterkara að hafa mikinn meirihluta því þá er meiri sátt fyrir þær breytingar sem framundan eru,“ segir hún.

Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, var á kosningavöku í Löngubúð þegar Austurfrétt heyrði í honum. Þar var fullt út úr dyrum.

„Fyrst og síðast er ég ánægður með niðurstöðuna. Við einsettum okkur í nefndinni að gera fólki kleift að taka upplýsta ákvörðun á kjördag og ég held að það hafi tekist. Mér þykir sérstaklega vænt um þessi afgerandi úrslit. Það fer enginn að velkjast í vafa um vilja þessara sveitarfélaga til sameiningar. Það eru spennandi tímar framundan.“

Þar greiddu 64% atkvæði með sameiningum. „Ég skynjaði jákvæðan anda í aðdraganda kjördags en þessar niðurstöður eru betri en ég þorði að láta mér detta í hug.“

Á Borgarfirði voru 65% fylgjandi sameiningu. „Satt að segja bjóst ég við þessu. Ég var frekar viss um að þetta yrði samþykkt,“ segir Jakob Sigurðsson, oddviti.

„Ég er mjög ánægður. Ég get ekki sagt annað, eftir alla þessa vinnu sem lögð hefur verið í sameininguna. Samstarfsnefndin hefur staðið sig vel í að vinna málið faglega. Ég er líka ánægður með kjörsóknina. Við vissum að hún yrði dræm á Fljótsdalshéraði, en hún náði þó helmingi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.