Lykilatriði að nota sápu og þvo sér vel um hendurnar til að forðast kórónaveiruna

Venjuleg handsápa er besta og áhrifaríkasta vopnið í baráttunni við útbreiðslu kórónaveirunnar Covid-19. Andlitsgrímur gera lítið gagn til varnar, áhrifaríkara er að forðast að snerta á sér andlitið.

Þetta ritar Vopnfirðingurinn Páll Þórðarson, prófessor í efnafræði við Háskólann í Nýju Suður Wales (UNSW) í Sydney í Ástralíu, í pistli sem hann birti á Facebook um helgina. Páll hefur í um 20 ár fengist við nanótækni og sjálfsamsett efni, en kórónaveiran er dæmi um slíkt.

Í pistlinum útskýrir Páll að kórónaveiran sé í raun sjálfsamsett nanóeind og veikasti hlekkur hennar sé fituhimna sem haldi henni saman. Handsápan leysir upp fituhimnuna þannig að veiran dettur í sundur „eins og spilaborg“ og verður þar með óvirk.

Páll segir sótthreinsispritt, eða vökva eða krem sem innihaldi spíra og bakteríudrepandi efni, hafa svipuð áhrif en einungis vegna þess að þau innihaldi sápu. „Þar af leiðandi eru þær bara í raun bara mjög dýr útgáfa af sápu.“

Lifir á flötu yfirborði

Páll útskýrir hvernig veiran er samsett og hvernig hún dreifir sér milli frumna í mannslíkamanum og veikir einstaklinginn. Hann jafnframt útskýrir hvernig veiran dreifir sér milli mannfólks. Veiran hefst við í lungunum og þegar við hóstum eða hnerrum þeytast litlir vatnsdropar úr lungunum allt að 10 metra leið. Á þessum dropum hangir veiran, aðallega þó þeim stærri og fer hún því sjaldnast lengra en tvo metra. Þess vegna hefur fólki verið ráðlagt að hnerra eða hósta í olnbogabótina.

Þótt vatnsdropinn þorni á hörðu yfirborði lifir veiran þar áfram. Hlutir eins og vatn og hiti auka á sundrungu hennar, sem og ef hún lendir á hrjúfu eða lífrænu yfirborði, svo sem timbri. Að sögn Páls getur hún lifað á stáli, plasti, steypu í nokkra klukkustundir, jafnvel nokkra daga við bestu skilyrði.

Þegar einstaklingur snertir yfirborð með veiru getur hún fest við hann því hún loðir við húð. Hún sýkir hins vegar ekki í gegnum hana. Vandamálið er hins vegar að mannfólkið snertir andlit sitt á 3-5 mínútna fresti í vöku og þá getur veiran færst af höndum yfir í andlit. Þá er hún komin í nálægð við öndunarfæri. Lítið þarf því til að veiran komist inn í líkamann í gegnum slímhúð í augum, nefi eða munni og þar með byrjar einstaklingurinn að veikjast. Af þessum sökum veita andlitsgrímur litla vörn, því fólk er eftir sem áður að snerta andlit sitt.

Ekki snerta andlitið

Það að skola hendur aðeins með vatni og þurrka á eftir gerir lítið að mati Páls og sprittefnin geta einnig verið takmörkuð. Veiran er í eðli sínu fitukeppur sem loðir við húðina og en fituefnin í sápunni bæði losa veiruna frá húðunni og sundra henni.

„Veirur eru nánast eins og litlir fituboltar með próteinum og RNA, nema þessir boltar eru á nanóskala. Þessir boltar eru mjög stöðugir og geta verið „virkir“ utan líkamans í talsvert langan tíma.

Þeir loða við húðina ef maður snertir þá og vegna þess að flest okkar hafa fyrir kæk að snerta andlit okkar reglulega, endar veiran í munni, nefi eða augum og þar með er maður komin með veiruna.

Besta ráðið er því að reyna að forðast það að snerta á sér andlitið, þvo reglulega hendurnar vel og vandlega með handsápu, eða ef hún er ekki tiltæk, nota spírakrem eða handþurrkur,“ skrifar Páll.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.