Lúpínan ógnar öðrum vistkerfum

„Við vonumst til þess að geta hamlað útbreiðslu jurtarinnar og hindrað að hún nemi land á nýjum svæðum og þá helst í friðlöndunum okkar, Fólkvangi Neskaupstaðar og í Hólmanesinu,“ segir Anna Berg Samúelsdóttir, umhverfisstjóri Fjarðabyggðar um átak gegn lúpínu sem hafið er í sveitarfélaginu.

Átakið stendur fram í ágúst en á þessum tíma er jurtin er í háblóma og rót hennar næringarlítil og viðkvæm fyrir slætti. En af hverju þarf átak gegn lúpínu?

„Lúpína er jurt sem er ágeng í íslensku vistkerfi og við ætlum af kostum að reyna hamla útbreiðslu hennar.Þegar lúpínan er í sínu náttúrulega umhverfi, sem er Alaska, er hún í vistkerfi þar sem jafnvægi við hana hefur myndast. Á Íslandi á lúpína enga náttúrulega keppinauta sem mynda jafnvægi við hana í vistkerfum okkar og við þannig aðstæður á lúpínan auðvelt með að dreifa sér. Lúpína hefur í dag náð góðri fótfestu í íslensku vistkerfi og t.d. samkvæmt könnun Náttúrustofu Austurlands jókst lúpínubreiða í Reyðarfirði á árunum 1998-2011 tuttugufalt en frá 2011-2013 jókst breiðan fimmtán sinnum í viðbót. Þetta þýðir að breiðan sem umræðir er farin að stækka með veldisvexti og hefur því á 15 árum þrjátíu og fimmfaldast,“ segir Anna Berg.

Hefur verið nýtt til landgræðslu
Anna Berg segir lúpínuna hafa verið nýtta til landgræðslu vegna niturbindandi eiginleika sinna. „Frá því að jurtin náði fótfestu hér á landi upp úr 1950 hefur hún verið ein af aðal landgræðslujurtum Landgræðslunnar og var henni um árabil sáð um allt land. Í dag hefur Landgræðslan hætt notkun á henni og selur ekki né afhendir lúpínufræ til annarra. Landgræðslan bendir á að lúpínufræjum skuli einvörðungu dreifa á samfelld sendin rofsvæði sem eru hið minnsta 500 ha að stærð.“

Anna Berg segir að samkvæmt greiningu Náttúrustofnun Íslands á vistgerðum Íslands sé í Fjarðabyggð að finna góðan þéttleika af fjalldrapavistkerfi sem verði að varðveita. „Gróður innan fjalldrapavistkerfa eru m.a. krækilyng, beitilyng, fjalldrapi, bláberjalyng, stinnastör og fleira. Fái lúpínan að þróast áfram óáreitt og með þeim veldisvexti sem breiðurnar eru komnar í er hætta á að fyrrgreind vistkerfi tapist. Innan þessa vistkerfis þrífast tegundir á borð við heiðlóu, spóa, stelk og músarindill. Í lúpínubreiðum er að finna annarskonar vistkerfi þar sem því miður fyrrgreindir fuglar velja síður að dvelja aftur á móti þá eru lúpínubreiður góður griðastaður t.d. hagamúsarinnar sem getur kallað á aukningu fugla á borð við uglu.“

Mikill áhugi á verkefninu
Anna Berg segir marga áhugasama um verkefnið. „Sumir vilja fá lánuð tæki en aðrir eru að láta vita af svæðum sem þeir eru og/eða hafa verið að fóstra. Það er afar gaman og fróðlegt að sjá myndir af þeim svæðum sem hafa verið fóstruð sl. ár. Einnig hef ég tekið á móti hvatningu frá fólki utan sveitarfélagsins og félagasamtökum tengdum umhverfismálum.“

Lúpínuvinir innanum
Anna Berg segir að sama skapi hafi orðið vart við nokkra „lúpínuvini“. Við höfum orðið vör við að lúpínuvinir séu andvígir átakinu og bera fyrir sér að jurtin eigi rétt á sér, sé falleg og gefi svæðum fagran fjólubláan lit. Jurtin er þessu fólki kær og það ber ávalt að virða skoðanir og upplifanir fólks í þessum efnum.

Ef við í fjarlægðri framtíð verðum svo heppin að ná tökum á útbreiðslu lúpínunnar er ekki ólíklegt að einhverjum völdum svæðum verði hlíft svo þeir sem henni unna geti notið fjólubláu blóma jurtarinnar í júní og júlí. En eins og staðan er í dag erum við að reyna hið minnsta að bara hamla veldisvexti lúpínubreiða í Fjarðabyggð.“

Tæki fást lánuð hjá áhaldahúsum sveitarfélagsins
Á þessu tímabili er hægt að fá lánuð tæki hjá áhaldahúsum utan opnunartíma, frá kl. 18:00 til kl. 08:00 morguninn eftir. Þeir sem hafa áhuga á að nýta sér þetta tækifæri eru beðnir um að hafa samband við umhverfisstjóra Fjarðabyggðar, Önnu Berg Samúelsdóttur, í síma 470 9065 eða á netfanginu This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Tekið er við tækjapöntunum og ráðgjöf veitt á öllu tímabilinu.

Sé vilji hverfissamtaka eða einstaklinga til þess að fóstra ákveðin svæði er gott að gera slíkt í samráði við umhverfisstjóra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.